Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir nauðsynlegt að kalla saman Alþingi strax eftir helgi til að fara yfir álit umboðsmanns um vinnubrögð Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.
„Það er ótækt að þetta liggi órætt til 22. janúar í ljósi alvarleika málsins,“ segir Bergþór sem hyggst fara fram á það að Alþingi verði kallað saman fyrr en áætlað var.
„Ákúrur umboðsmanns eru mjög alvarlegar, bæði er varðar það að meðalhófs hafi ekki verið gætt og að þarna hafi beinlínis verið brotið gegn lögum. Það verður auðvitað að hafa í huga í því samhengi hvort að ráðherrann var í góðri trú eða ekki þegar það var gert. Það var augljóslega ekki, það sást á gögnum málsins strax í byrjun þegar ráðherrann hafði verið varaður við þessu af ráðuneyti sínu,“ segir hann.
Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagðist Svandís telja skýrt að álit umboðsmanns kalli ekki á að hún íhugi stöðu sína sem ráðherra. Sagði hún jafnframt að mál hennar og Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra, sem hætti sem fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns, væru ólíkt vaxin.
Bergþór segir það mjög „selektívt“ af Svandísi að nálgast málið með þessum hætti. Í því samhengi segir hann það geta orðið áhugavert að rifja upp orð Svandísar í sambærilegum málum á fyrri stigum. Tekur hann sem dæmi að Svandís hafi haft sig töluvert í frammi þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sínu embætti árið 2014.
Því til viðbótar segir hann ekki mikla iðrun að sjá í yfirlýsingu Svandísar sem hún birti á Facebook fyrr í dag. „Þar er bara að sjá meiri forherðingu,“ segir hann.
Spurður hvort hann sé þeirrar skoðunar að Svandís ætti að segja af sér vegna málsins segir hann:
„Mér hefur alla tíð þótt, margra hluta vegna, að Svandís ætti að segja af sér af því að hún er ekki góður matvælaráðherra. Sú afstaða mín hefur verið skýr lengi.“