Þingflokkur Pírata vill að Svandís segi af sér

Gísli segir að hann muni sjálfur ekki leggja fram vantrauststillögu.
Gísli segir að hann muni sjálfur ekki leggja fram vantrauststillögu. Samsett mynd

Þingflokkur Pírata telur eðlilegast að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segi af sér sem ráðherra.

Þetta segir Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata og varaformaður atvinnuveganefndar, í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá fyrr í dag er það álit umboðsmanns Alþing­is að út­gáfa reglu­gerðar Svandís­ar Svavars­dótt­ur, sem bannaði tíma­bundið hval­veiðar í sum­ar, hafi ekki sam­ræmst kröf­um um meðal­hóf og hafi ekki átt sér nægi­lega skýra stoð í lög­um.

Skiptir máli hvernig þú gerir það

Gísli segir að hann muni sjálfur ekki leggja fram vantrauststillögu heldur gerir hann ráð fyrir því að ríkisstjórnin muni sjá afsögn hennar.

„Efnislega erum við sammála því að banna hvalveiðar og höfum lagt frumvarp þess efnis en það skiptir máli hvernig þú gerir það,“ segir hann og bætir við að Píratar hafi talað um það í sumar að vinnubrögð Svandísar hafi ekki verið góð.

Hættir sem einn ráðherra og verður annar

Spurður hvort að allir í þingflokki Pírata séu sammála um það að Svandís segi af sér segir hann svo vera.

„Já við erum á því að það væri eðlilegast að hún gerði það. Við horfum svolítið á það að við erum ekkert viss um það að það verði endilega þannig, að jafnvel þó hún segi af sér að það hafi einhver áhrif,“ segir hann og vísar í afsögn Bjarna Benediktssonar úr fjármálaráðuneytinu í haust og hvernig hann færði sig yfir í utanríkisráðuneytið.

„Það sem okkur finnst kannski sorglegast í þessu öllu saman er að það að axla ábyrgð er ekki lengur að hætta sem ráðherra, heldur hættir þú sem einn ráðherra og verður annar ráðherra,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert