Varla þjóðarsátt án opinbera vinnumarkaðarins

Ásdís segir að betra væri ef opinberi vinnumarkaðurinn tæki þátt …
Ásdís segir að betra væri ef opinberi vinnumarkaðurinn tæki þátt í núverandi kjaraviðræðum. mbl.is/Samsett mynd/Sigurður Bogi/Kristinn Magnússon

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir að í kjaraviðræðum um svokallaða þjóðarsátt vanti opinbera vinnumarkaðinn að borðinu, en hann hefur mikil áhrif á kostnað sveitarfélaganna.

Segir hún að ekki megi gleymast að í kjölfar kjaraviðræðna Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttarfélaga taki við kjaraviðræður hjá starfsmönnum hins opinbera.

„Í umræðunni er rætt um þjóðarsátt en það getur vart talist þjóðarsátt nema opinberi vinnumarkaðurinn sé hluti af þessari sátt. Að mínu mati er nauðsynlegt að opinberi markaðurinn sem vegur um 30% af vinnumarkaði sé þátttakandi í slíkri sátt, annars er ekki rétt að tala um þjóðarsátt,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is.

Mikilvægt að allir sameinist um sömu stefnu

Segir hún þetta skipta máli, sérstaklega í ljósi þess að kröfur eru nú gerðar á þátttöku sveitarfélaga í kjarasamningum almenna vinnumarkaðarins. Betra væri að hennar mati ef opinberi vinnumarkaðurinn tæki þátt í núverandi kjaraviðræðum.

„Hættan er sú að ef að það verður aðeins samið á almennum vinnumarkaði, svo fylgi opinberi markaðurinn á eftir, að þá verði kannski ekki samið í línu við það sem nú er verið að semja um. Til að tryggja heildstæða sátt um þá stefnu sem mörkuð verður þarf allur vinnumarkaðurinn að vera þátttakandi í þessum viðræðum,“ segir hún og bætir við:

„Á þessum tímapunkti er því mjög mikilvægt að almenni og opinberi vinnumarkaðurinn sameinist um þá stefnu sem verið sé að marka og að allir séu skuldbundnir til að fylgja þeirri stefnu.“

Gjaldskrá fylgir raunþróun launa og verðlags

Stéttarfélögin hafa gagnrýnt gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga og beðið þau um að endurskoða þær.

Í Kópavogi hefur verið tekið upp nýtt verklag sem tengir gjaldskrár við raunþróun launa og verðlags. Því tekur bæjarstjórn þar ekki ákvörðun um hækkanir eða lækkanir gjalda fyrir fjárhagsáætlun hvers árs eins og tíðkast hjá flestum sveitarfélögum.

„Launaþróun sveitarfélaga vega einna þyngst í þjónustu sveitarfélaga og auðvitað almenn verðlagsþróun hefur áhrif,“ segir Ásdís og bætir við:

„Því munu hóflegar launahækkanir og hjaðnandi verðbólga sjálfkrafa endurspeglast í hóflegri gjaldskrárhækkun Kópavogsbæjar,“ segir Ásdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert