Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kallar eftir afsögn matvælaráðherra vegna álits umboðsmanns Alþingis um vinnubrögð ráðherrans þegar tímabundið tímabundið hvalveiðibann var sett á í sumar.
„Ég lít þetta alvarlegum augum. Hún braut heimildarreglu lögmætisreglunnar,“ segir Inga spurð um álit umboðsmanns þess efnis að Svandís Svavarsdóttir hefði brotið lög með því að banna hvalveiðar.
Ákvörðunin átti sér ekki nógu skýra stoð í 4. gr. laga nr. 26/1949 um hvalveiðar auk þess sem brotið var gegn meðalhófsreglu.
Inga nefnir að ráðherrann sé einnig búinn að baka íslenskum skattgreiðendum hundruð milljóna króna í skaðabætur.
„Eftir þetta álit umboðsmanns liggur það algjörlega á borðinu að við þurfum að greiða háar fjárhæðir. Það er í umboði þessa ráðherra. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hún brýtur lögin í embætti.“
Vísar hún til ársins 2011 þegar Svandís hafnaði tillögu sveitarstjórnar Flóahrepps um aðalskipulag en Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms um að ógilda bæri tillögu ráðherrans.
Inga segir alvarlegt að ráðherrann taki sér löggjafarvald með þessum hætti.
„Hún brýtur lögmætisregluna sem er grundvallarregla stjórnsýsluréttar. Ráðherrann er að brjóta þessa reglu sem á að vernda okkur,“ segir hún en breyting á lögum um hvalveiðar hefði þurft þingmeirihluta. Inga tekur þó fram að hún sé á móti hvalveiðum.
„Hún er að ganga algjörlega yfir strikið og brýtur bæði gegn lögmætisreglu og meðalhófsreglu. Þetta snýst ekki um hvort við séum með eða á móti hvalveiðum, hún á að axla ábyrgð á því.“
Um ummæli ráðherrans þess efnis að löggjöfin sé ófullkomin bætir Inga við í lokin:
„Henni er í lófa lagið að breyta löggjöfinni ef hún er svona ómöguleg.“