„Þetta er algjört brjálæði“

Agnes Anna Sigurðardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Kalda, ræddi við blaðamenn …
Agnes Anna Sigurðardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Kalda, ræddi við blaðamenn Morgunblaðsins. mbl.is/Brynjólfur Löve

Hjónin Agnes Anna Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson höfðu aldrei bruggað bjór þegar þau ákváðu að slá til og stofna fyrsta handverksbrugghús landsins árið 2006.

Brugghúsið Kalda þekkja nú flestir landsmenn og eru Bjórböðin á Árskógssandi jafnframt vinsæl heilsulind innlendra jafnt sem erlendra ferðamanna.

Agnes Anna segir frá forsögu Kalda í Hringferðarviðtali Morgunblaðsins. 

Frétt í Heimskringlu

Það var lítil frétt í Heimskringlunni árið 2005 um vinsældir brugghúsa í Danmörku sem kveikti áhuga hjónanna. Ýmislegt hafði þá gengið á í lífi þeirra og áttu þau á brattann að sækja.

Ólafur Þröstur, sem starfaði á sjó, slasaðist illa á fæti árið 2003 og gat ekki lengur stundað sjómennsku frá Árskógssandi. Þá höfðu einnig komið upp veikindi innan fjölskyldunnar.

„Hér á Árskógssandi snerist allt um sjómennsku á þessum tíma þannig það lá kannski beinast við að flytja í burtu en ég gat alls ekki hugsað mér það. Hef alltaf sagt að það sé hvergi eins gott að búa eins og á Árskógssandi en ég hef náttúrulega engan samanburð, ég hef alltaf búið hérna,“ segir Agnes Anna.

Blaðamaður kynnir sér bruggframleiðsluna.
Blaðamaður kynnir sér bruggframleiðsluna. mbl.is/Brynjólfur Löve

Gekk á ýmsu

Hjónin voru opin fyrir nýjum tækifærum og ákváðu að láta slag standa.

„Á þessum tíma voru bara tveir risar að brugga bjór, annars vegar Ölgerðin með Egils Gull og Vífilfell með Víking bjórinn, þannig að það gekk nú á ýmsu að komast inn á þennan markað að brugga bjór, hvað þá fyrsta handverksbrugghúsið. En við höfðum enga þekkingu né kunnáttu að brugga bjór. Við höfðum aldrei bruggað bjór þegar að við byrjuðum.“

Þetta er algjört brjálæði?

„Þetta er algjört brjálæði. Maður sér það þegar maður horfir í baksýnisspegilinn að þetta er náttúrulega hálfgerð geðveiki. Ég hef alltaf sagt að þessi frétt hafi talað til mín,“ segir Agnes.

„Maðurinn minn var út á lóð eitthvað að brasa og ég bara kallaði á hann „Óli, það er bara frábært tækifæri fyrir okkur hérna, við þurfum ekki að flytja í burtu, við byrjum bara að brugga bjór!““

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert