Í notalegri stemningu á Kaffi Vest var tilvalið að spjalla við leikarana Kötlu Margréti og Sverri Þór, en þau leika í þættinum Kennarastofunni sem kominn er í loftið hjá Sjónvarpi Símans. Þar fylgjumst við með skólastýrunni Valdísi, leikinni af Kötlu Margréti, og tónlistarkennaranum Sumarliða, leiknum af Sveppa, ásamt skrautlegum hópi kennara. Áhorfendur eru þar flugur á vegg í kennarastofunni þar sem nýi kennarinn Sumarliði hrærir upp í hlutunum.
Sverrir og Katla eru sammála um að tökurnar hafi verið afar skemmtilegar og leikhópurinn frábær, en þættina skrifuðu Jón Gunnar Geirdal, Karen Björg Eyfjörð Þorsteinsdóttir og Kristófer Dignus, sem einnig leikstýrði.
„Þetta voru líka mjög þægilegar tökur því við vorum alltaf á sama staðnum; í Öldutúnsskóla,“ segir Katla, en að sögn Jóns Gunnars er það einmitt skólastjóri þess skóla, Valdimar Víðisson, sem er fyrirmyndin að Valdísi, en Valdimar er mágur Jóns.
Þegar tónlistarkennarinn Sumarliði bætist í kennarahópinn fer skemmtileg atburðarás í gang.
„Sumarliði er mjög vel meinandi en ef við orðum það kurteislega er hann með aðrar áherslur en Valdís, sem ég leik. Hún er með allt í föstu formi en hann kemur með ferskari blæ,“ segir Katla og nefnir að Sumarliði hugsi út fyrir boxið.
„Og hann er algjört sjarmatröll,“ segir hún og Sverrir grípur orðið brosandi:
„Það er ekki oft sem ég er fenginn til að leika sjarmatröll! Það er allt of sjaldan, þannig að ég var gríðarlega ánægður með þetta. Og ég var ekki ráðinn þar til að vera fyndinn; það voru aðrir sem sáu um það,“ segir Sverrir, en hann hefur undanfarin ár leikið í dramaseríum á borð við Verbúðina og Aftureldingu.
Katla og Sverrir segja ekki hafa verið erfitt að setja sig inn í hlutverk sín fyrir Kennarastofuna en Katla segir þó sinn karakter ekkert líkan sér.
„Ég á ekki stóran snertiflöt með þessari konu en hún er með þráhyggjuröskun og er taugaveikluð, viðkvæm og föst í forminu. En hún kom rólega til mín,“ segir Katla og segir Valdísi nokkuð sérstaka persónu.
„Hinum kennurunum finnst hún skrítin skrúfa,“ segir hún.
„Hún er með sína bresti. Ég elska konur með góða bresti,“ segir Sverrir og þau hlæja dátt.
Ítarlegt viðtal er við Kötlu og Sverri í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.