Eins og að mega ekki flytja til Kópavogs

Þórey Bergmannsdóttir flutti til Lundar í Svíþjóð í apríl síðastliðnum. …
Þórey Bergmannsdóttir flutti til Lundar í Svíþjóð í apríl síðastliðnum. Nú sér hún fram á að flytja aftur til baka til Íslands þegar hún og um þrjú þúsund aðrir íslenskir lífeyrisþegar erlendis missa persónuafslátt sinn 1. janúar 2025. Ljósmynd/Aðsend

„Eins og þetta snýr að mér fæ ég bréf 28. [desember] um að hér eftir, eða frá 2024, yrðu þá greiðslur til mín lækkaðar,“ segir Þórey Bergmannsdóttir í samtali við mbl.is, öryrki sem flutti til Lundar í Svíþjóð í apríl síðastliðnum til að vera nær systur sinni, sem einnig er búsett þar á svæðinu, og létta undir með henni, þriggja barna móður.

Með lækkuninni vísar Þórey til lagabreytingar sem á tímabili leit út fyrir að taka ætti gildi nú um áramótin og nær til um þrjú þúsund íslenskra lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis. Eru þeir með lagabreytingunni sviptir persónuafslætti sínum á Íslandi og verða því alfarið af þeim tekjum sem í afslættinum felast.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kom hins vegar auga á það sem hlutu að vera reginmistök, að slík breyting tæki gildi nánast fyrirvaralaust, og var gildistöku laganna frestað til 1. janúar 2025 síðasta starfsdag Alþingis fyrir jól, 16. desember.

Eftir stendur að íslenskir lífeyrisþegar erlendis verða af afslætti sem á þessu ári nemur 64.926 krónum á mánuði, tæpum 800.000 krónum yfir árið, og telur Þórey það skammgóðan vermi að þessi breyting verði eftir eitt ár. Fjöldi Íslendinga þurfi á þeim tíma að ákveða hvort þeir hyggist flytja aftur til Íslands sem sé það sem íslensk stjórnvöld augljóslega ætli sér að neyða þá til.

Dæmigerð viðbrögð hjá TR

Fékk Þórey, eins og aðrir lífeyrisþegar erlendis, bréf frá Tryggingastofnun um málið sem sent var út 28. desember. Felmtri slegin hringdi hún í stofnunina og í framhaldinu í Skattinn og fékk þær upplýsingar að þarna hefðu orðið mistök. Kveðst hún þar þekkja vissa hlið á TR.

„Mér finnst þetta dálítið dæmigerð viðbrögð hjá Tryggingastofnun, það er eins og þeir telji að þeirra hlutverk sé að gera lífið eins erfitt og hægt er fyrir skjólstæðinga sína. Þarna stökkva þeir á eitthvað í fljótfærni og hugsa „Yes! Þarna getum við tekið peninga af þeim!“,“ segir Þórey um þann misskilning sem leiðréttur var og TR hefur beðist velvirðingar á á sinni heimasíðu.

Þórey lét mbl.is í té mynd af kassakvittun úr hverfisbúðinni …
Þórey lét mbl.is í té mynd af kassakvittun úr hverfisbúðinni þar sem hún kaupir daglegar nauðsynjar. Íslenskir lesendur geta ef til vill borið saman við eitthvað af sínum daglegu innkaupum. Ljósmynd/Aðsend

„Nú er staðan þannig að örorku- og ellilífeyrisþegar munu ekki njóta persónuafsláttar neins staðar í heiminum nema á Íslandi. Þessi hópur er bara kominn í ættjarðarfjötra. Nú þarf ég bara að ákveða hvort ég ætli að flytja aftur til [...] Íslands,“ segir Þórey gröm, nýflutt til Svíþjóðar til nágrennis við systur sína.

Minnka um milljón

Nefnir hún enn fremur hentugra verðlag í Svíþjóð og styttri vetur þótt ekki séu þeir hlýrri, að minnsta kosti ekki þessa dagana. „Þegar ég er búin að telja allt saman sem ég verð af, persónuafsláttinn og húsnæðisstyrkinn sem lífeyrisþegar missa þegar þeir flytja til annars lands, reiknast mér til að mínar ráðstöfunartekjur minnki um að minnsta kosti milljón íslenskar krónur,“ heldur Þórey áfram.

Sé talan milljón tekin sem dæmi eru það 74.355 sænskar krónur og má þá hafa til viðmiðunar verð eins mjólkurlítra í Svíþjóð, léttmjólk með fituinnihald 0,5 prósent, sem er 9,93 SEK (byggt á verðsamanburði milli Noregs og Svíþjóðar á vefsíðu norska Dagbladet, Din Side, í nóvember). Mjólkin sem Þórey kaupir kostar þó að hennar sögn 10,90 SEK lítrinn.

Tryggingastofnun ríkisins sendi fyrir mistök út tilkynningu 28. desember sem …
Tryggingastofnun ríkisins sendi fyrir mistök út tilkynningu 28. desember sem varð til þess að mörgum íslenskum lífeyrisþeganum erlendis svelgdist á morgunkaffinu. Tilkynningin fór út fyrir mistök sem stofnunin harmar en eftir stendur lagabreyting 1. janúar 2025 sem verður mörgum í téðum hópi erfiður ljár í þúfu. Mynd/mbl.is

„Nú tek ég bara dæmi að gamni en kringum þetta er engin önnur leið en að flytja til Íslands nema ef ég flytti út fyrir Evrópska efnahagssvæðið og fengi að skrá lögheimili mitt hjá einhverjum á Íslandi,“ segir Þórey um stöðuna. „En það er auðvitað svindl,“ bætir hún við og kveðst aðspurð ekki ætla sér að bregða á það ráð.

Þegjandi og hljóðalaust í gegn

„Ég fékk þessa fínu íbúð og er búin að kaupa öll húsgögn í hana og svo koma þessar fréttir,“ segir Þórey og fær illa dulið gremju sína. En hyggst hún búa áfram í Svíþjóð?

„Nei, ég geri ekki ráð fyrir því. Það sem eftir verður eftir þessa breytingu yrði bara sama hörmungin og að lifa af því á Íslandi svo ég sé ekki annað en að ég verði þá betur sett þar og þá nær syni mínum. Ég mætti hafa einhverjar smá tekjur áður en lífeyririnn fer að skerðast en ég hef bara ekki heilsu í neina vinnu, ég kláraði heilsuna með of mikilli vinnu á sínum tíma og þess vegna er ég stödd þar sem ég er,“ útskýrir Þórey.

Henni þykja ættjarðarfjötrarnir verstir sem lagabreytingunni fylgja. „Maður greiddi í lífeyrissjóð árum saman og ávann sér ákveðin réttindi og nú eru þau allt í einu einskorðuð við Ísland. Mér finnst þetta með ólíkindum. Margir þeirra sem eru á Kanarí eru þar vegna gigtar og þurfa hlýrra veður en á Íslandi,“ bendir hún á áður en við komum að lokum spjalls við Þóreyju Bergmannsdóttur í Lundi í Svíþjóð sem hyggst flytja til baka til Íslands verði brottfall persónuafsláttar að raunveruleika 1. janúar 2025.

„Segjum að þú fengir einhverjar greiðslur frá Reykjavík og mættir ekki flytja til Kópavogs. Á fólk nú bara að flytja til Íslands aftur, selja allt sitt hafurtask og byrja upp á nýtt? Mér finnst þetta rosalegt og ég skil ekki hvað þetta fer þegjandi og hljóðalaust í gegn,“ eru lokaorð Þóreyjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert