Garðarnir við Grindavík farnir að taka á sig mynd

Unnið að gerð varnargarðsins við Grindavíkurveg.
Unnið að gerð varnargarðsins við Grindavíkurveg. mbl.is/Óttar Geirsson

Varnargarðarnir við Grindavík eru farnir að taka á sig mynd en verktakar hafa unnið sleitulaust síðustu sólarhringa við gerð þeirra. Vinna við þá hófst 2. janúar eða strax eftir að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra gaf grænt ljós á framkvæmdirnar.

Dómsmálaráðherra lagði til á ríkisstjórnarfundi rétt fyrir áramótin að ráðist yrði í fyrsta áfanga varnargarða við Grindavík sem fyrst. Lagt var til að í fyrstu lotu yrði einungis byggður helmingur af hæð efsta hluta garðsins og staðan í framhaldinu endurmetin, meðal annars með hliðsjón af stöðu og þróun jarðhræringa.

Verktakar eru að allan sólarhringinn.
Verktakar eru að allan sólarhringinn. mbl.is/Óttar Geirsson

Allt gengið mjög vel

„Þetta hefur allt gengið mjög vel. Við erum að fylla upp í þá hæð sem við ætlum okkur að fara í þessum fyrsta áfanga. Það er búið að koma fyrir akstursbrú yfir hitaveitulögnina sem er vestan við Grindavíkurveginn og það var stefnt á að byrja að keyra þar yfir í dag,“ segir Arnar Smári Þorvarðarson, byggingartæknifræðingur hjá Verkís, við mbl.is.

Grindarvíkurvegur fari á milli

Hann segir Grindavíkurbæ og HS Orka hafa unnið að endurnýjun hitaveitulagnar sem er niðurgrafin á þeim kafla sem varnargarðurinn gengur yfir.

„Sá hluti garðsins sem við erum að vinna við núna er 1.450 metrar að Grindavíkurvegi og svo nær hann eitthvað 400 metra lengra til vesturs. Það verður misgengi á endanum þannig að á endanum sem er norðar verður misgengi og þar er gert ráð fyrir að Grindavíkurvegurinn fari inn á milli. Honum verður breytt þannig að það þurfi ekki að fylla í vegskarðið og það er unnið við að finna lausn á því,“ segir Arnar Smári.

„Ljóst er að meginmarkmið garðsins er að verja byggð og innviði í Grindavík og yrði hann áberandi kennileiti. Garðurinn þverar Grindavíkurveg og Suðurstrandarveg ásamt því meðal annars að liggja samsíða Nesvegi,“ sagði í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Í minnisblaði frá Verkís er jafnframt lagt til að vinna með samráð og hönnum við seinni áfanga varnargarðsins skuli hefjast á næstu mánuðum.

Stærstu ýtur og gröfur

Arnar segir að í fyrsta áfanganum verði hæðin á varnargarðinum þremur metrum yfir hápunktum í landinu. 

„Það þýðir að þar sem við förum yfir lægðir verður garðurinn hærri, kannski 5-6 metrar.“

Gæti það tekist næstu helgi, gangi allt að óskum. 

Hann segir verktaka hafa unnið á sólarhringsvöktum frá því að vinnan við garðana hófst þann 2. janúar og voru stærstu ýtur og gröfur sem völ er á notaðar við verkið. Þá voru svokallaðar búkolluvélar notaðar til að flytja efnið úr Melhólsnámunni.

Hann segist ekki vera með fjölda starfsmanna á hreinu, sem koma að gerð varnargarðanna, en þeir séu eitthvað á bilinu 30-40.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert