Halla Tómasdóttir, forstjóri B team og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, segist ekki vera að velta fyrir sér öðru forsetaframboði en að hún muni gefa sér tíma til að hugsa málið vandlega.
Í Facebook-færslu segir Halla að það hafi komið henni verulega á óvart að Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann ætli ekki að gefa kost á sér í kosningum í vor.
„Ég er bæði hrærð og þakklát fyrir fallegu skilaboðin og hvatninguna sem ég hef fengið undanfarna daga um að gefa kost á mér í næstu forsetakosningum,“ segir í færslu Höllu sem bauð sig fram í kosningunum árið 2016 þegar Guðni var kjörinn forseti.
„Ég tel alls ekki sjálfsagt að ég komi upp í huga fólks sem mögulegur forseti þó ég hafi gefið kost á mér árið 2016 og notið góðs fylgis á lokasprettinum. Mér þótti vænt um hvert atkvæði þá, sem og skilaboðin sem berast núna og ég met þau mikils.“
Halla hefur verið forstjóri B team, sem eru samtök alþjóðlegra leiðtoga, í sex ár og segist hafa notið hverrar mínútu.
„Ég elska Ísland og mun ávallt vera talsmaður alls þess sem við höfum fram að færa og vona einlæglega að nýr forseti sjái hversu stórt hlutverk Íslands getur verið í heimi sem þarfnast fleiri frumkvöðla og leiðtoga sem einsetja sér að leysa þær áskoranir og nýta þau tækifæri sem blasa við á sviði sjálfbærni, friðar og jafnréttis fyrir alla,“ skrifar Halla að lokum.