Orkuveita Reykjavíkur tengir nýlega hveravirkni við þjóðveginn í Hveradölum ekki við jarðskjálftahrinur í Húsmúla suðvestur af Hengli.
Þetta segir Ásdís Benediktsdóttir, auðlindaleiðtogi Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis Orkuveitunnar.
Vel á þriðja tug jarðskjálfta mældust í Húsmúla 7. desember og stærri jarðskjálftahrina varð 24. nóvember þar sem stærsti skjálftinn mældist 3,4 að stærð og fannst vel í Hveragerði.
Ásdís segir jarðskjálftahrinur á svæðinu undir lok nóvember og í byrjun desember tengdar niðurdælingu á jarðhitavatni frá Hellisheiðavirkjun en frá því að niðurdæling hófst árið 2011 hefur verið viðvarandi smáskjálftavirkni á svæðinu.
Orkuveita Reykjavíkur hefur fylgst með yfirborðsvirkni á svæðinu allan rekstrartíma Hellisheiðarvirkjunar en hennar varð fyrst vart nærri þjóðveginum um áramótin 2018-2019.
Segir Ásdís að gufuvirkni á yfirborði sé eitt af einkennum háhitasvæða og sé vel þekkt að hún taki breytingum af náttúrulegum orsökum. Það sé þó líka vel þekkt að gufuvirkni á yfirborði taki breytingum þegar vinnsla háhitasvæða hefst.
Segir hún enga ákveðna leið til að greina vel á milli hvort um náttúrulegar breytingar sé að ræða eða breytingar af mannavöldum en þó sé reynt að leggja mat á það með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni.
Breytingar á yfirborðsvirkni hófust í Hverahlíð eftir að holur voru boraðar þar og því segir Ásdís hægt að leiða að því líkum að breytingarnar tengist nýtingu jarðhitans á svæðinu.
Starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur varð fyrst vart við gufuvirkni við þjóðveginn í Hveradölum haustið 2022 og því segir Ásdís að megi leiða töluverðar líkur að því að breytingarnar séu vegna vinnslu orkuveitunnar og niðurdælingar á svæðinu, þó ekki sé hægt að fullyrða það. Hún segir Orkuveituna hafa verið í góðu samtali við Vegagerðina um hverina við vegina.
Fjallað var um breytingar á háhitasvæðinu við Hveradali á mbl.is í nóvember. Þá sagði Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur að allar tilfærslur á háhitasvæðum væru merkilegar.
Sagði hann að stundum geti slíkar tilfærslur orðið í kjölfar jarðskjálftahrina. Nefndi hann sem dæmi þegar veruleg jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga varð til þess að háhitasvæði færðist til svo um munaði. Sagði hann það ekki vera tilfellið á þessu svæði enda hafi ekki orðið stórir jarðskjálftar í Hengilskerfinu.
Ari fjallaði um tilfærslu virkninnar á háhitasvæðinu við Hveradali á samfélagsmiðlum sínum í maí. Sagði hann þá að stutt væri frá hverasvæðinu við Skíðaskálann upp að löngu gossprungunni sem var virk fyrir um 1.900 til 2.000 árum.
Ari sagði að einhvers konar kvikuinnskot myndi framkalla miklu meiri jarðskjálfta en hafa verið á svæðinu og útilokaði því þann möguleika einnig.
Sagði hann breytingarnar geta tengst vinnu á háhitasvæðum sem þessum en þegar gufa og vatn sé dregið upp úr jörðu geti ástandið efst í jarðhitakerfinu breyst og það verði til gufupúði sem geti farið að skila sér.
Sagði hann alþekkt, til dæmis á Kröflusvæðinu, Þeistareykjum og nærri Reykjanesvirkjun, að gufa sjáist koma upp á nýjum stöðum og þeir hitni vegna breytinga á efri hluta vinnslusvæðis. Sagði hann í nóvember að það gæti vel verið skýringin þarna.
Ásdís segir vandamál sem þetta lítt þekkt á heimsvísu, og jafnvel alls ekki þekkt, og því skipti miklu máli að fylgjast áfram vel með.
Vegagerðin er með sírita í holum í veginum sem gefa upp hita á mismunandi dýpi. Segir Ásdís að af þeim gögnum sem Orkuveitan hefur undir höndum og ná til loka október hafi hitinn haldist ágætlega stöðugur niður á rúmlega tveggja metra dýpi og segir hún hann aðallega flökta með úrkomu á svæðinu.