Jarðskjálftar ekki valdið breytingum á háhitasvæði

Gylfi Gylfa­son áhugamaður um jarðvísindi hefur tekið tekið myndir með …
Gylfi Gylfa­son áhugamaður um jarðvísindi hefur tekið tekið myndir með hita­mynda­véladróna á háhitasvæðinu við Hveradali. Skjáskot/YouTube/Just Icelandic/Gylfi Gylfason

Orkuveita Reykjavíkur tengir nýlega hveravirkni við þjóðveginn í Hveradölum ekki við jarðskjálftahrinur í Húsmúla suðvestur af Hengli.

Þetta segir Ásdís Benediktsdóttir, auðlindaleiðtogi Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis Orkuveitunnar.

Vel á þriðja tug jarðskjálfta mældust í Húsmúla 7. desember og stærri jarðskjálftahrina varð 24. nóvember þar sem stærsti skjálftinn mældist 3,4 að stærð og fannst vel í Hvera­gerði.

Skjálftar af völdum niðurdælingar

Ásdís segir jarðskjálftahrinur á svæðinu undir lok nóvember og í byrjun desember tengdar niðurdælingu á jarðhitavatni frá Hellisheiðavirkjun en frá því að niðurdæling hófst árið 2011 hefur verið viðvarandi smáskjálftavirkni á svæðinu.

Orkuveita Reykjavíkur hefur fylgst með yfirborðsvirkni á svæðinu allan rekstrartíma Hellisheiðarvirkjunar en hennar varð fyrst vart nærri þjóðveginum um áramótin 2018-2019.

Segir Ásdís að gufuvirkni á yfirborði sé eitt af einkennum háhitasvæða og sé vel þekkt að hún taki breytingum af náttúrulegum orsökum. Það sé þó líka vel þekkt að gufuvirkni á yfirborði taki breytingum þegar vinnsla háhitasvæða hefst.

Segir hún enga ákveðna leið til að greina vel á milli hvort um náttúrulegar breytingar sé að ræða eða breytingar af mannavöldum en þó sé reynt að leggja mat á það með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni.

Ásdís Benediktsdóttir, auðlindaleiðtogi Orku náttúrunnar.
Ásdís Benediktsdóttir, auðlindaleiðtogi Orku náttúrunnar. Ljósmynd/OR

Breytingarnar tengjast niðurdælingu og nýtingu jarðhitans

Breytingar á yfirborðsvirkni hófust í Hverahlíð eftir að holur voru boraðar þar og því segir Ásdís hægt að leiða að því líkum að breytingarnar tengist nýtingu jarðhitans á svæðinu.

Starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur varð fyrst vart við gufuvirkni við þjóðveginn í Hveradölum haustið 2022 og því segir Ásdís að megi leiða töluverðar líkur að því að breytingarnar séu vegna vinnslu orkuveitunnar og niðurdælingar á svæðinu, þó ekki sé hægt að fullyrða það. Hún segir Orkuveituna hafa verið í góðu samtali við Vegagerðina um hverina við vegina.

Jarðskjálftahrinur urðu undir lok nóvember og í byrjun desember í …
Jarðskjálftahrinur urðu undir lok nóvember og í byrjun desember í Húsmúla. Kort/Map.is

Ekki um kvikuinnskot að ræða

Fjallað var um breytingar á háhitasvæðinu við Hveradali á mbl.is í nóvember. Þá sagði Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur að allar tilfærslur á háhitasvæðum væru merkilegar.

Sagði hann að stundum geti slíkar tilfærslur orðið í kjölfar jarðskjálftahrina. Nefndi hann sem dæmi þegar veruleg jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga varð til þess að háhitasvæði færðist til svo um munaði. Sagði hann það ekki vera tilfellið á þessu svæði enda hafi ekki orðið stórir jarðskjálftar í Hengilskerfinu.

Ari fjallaði um tilfærslu virkninnar á háhitasvæðinu við Hveradali á samfélagsmiðlum sínum í maí. Sagði hann þá að stutt væri frá hverasvæðinu við Skíðaskálann upp að löngu gossprungunni sem var virk fyrir um 1.900 til 2.000 árum.

Ari Trausti Guðmunds­son jarðeðlis­fræðing­ur.
Ari Trausti Guðmunds­son jarðeðlis­fræðing­ur.

Ari sagði að einhvers konar kvikuinnskot myndi framkalla miklu meiri jarðskjálfta en hafa verið á svæðinu og útilokaði því þann möguleika einnig.

Sagði hann breytingarnar geta tengst vinnu á háhitasvæðum sem þessum en þegar gufa og vatn sé dregið upp úr jörðu geti ástandið efst í jarðhitakerfinu breyst og það verði til gufupúði sem geti farið að skila sér.

Sagði hann alþekkt, til dæmis á Kröflusvæðinu, Þeistareykjum og nærri Reykjanesvirkjun, að gufa sjáist koma upp á nýjum stöðum og þeir hitni vegna breytinga á efri hluta vinnslusvæðis. Sagði hann í nóvember að það gæti vel verið skýringin þarna.

Húsmúli er dyngja, fell sem gengur suðvestur úr Hengli.
Húsmúli er dyngja, fell sem gengur suðvestur úr Hengli. Kort/Map.is

Lítt þekkt vandamál

Ásdís segir vandamál sem þetta lítt þekkt á heimsvísu, og jafnvel alls ekki þekkt, og því skipti miklu máli að fylgjast áfram vel með.

Vegagerðin er með sírita í holum í veginum sem gefa upp hita á mismunandi dýpi. Segir Ásdís að af þeim gögnum sem Orkuveitan hefur undir höndum og ná til loka október hafi hitinn haldist ágætlega stöðugur niður á rúmlega tveggja metra dýpi og segir hún hann aðallega flökta með úrkomu á svæðinu.

Starfsmenn Vegagerðarinnar við hverasvæðið í Hveradölum. Vegagerðin er með sírita …
Starfsmenn Vegagerðarinnar við hverasvæðið í Hveradölum. Vegagerðin er með sírita í holum í veginum sem gefa upp hita á mismunandi dýpi. Ljósmynd/Vegagerðin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert