Á fimmta tug manns tjaldaði um helgina með Palestínumönnunum sem hafa dvalið á Austurvelli í mótmælaskyni frá 27. desember, að sögn aðgerðarsinna.
Eins og fram hefur komið eru Palestínumennirnir búsettir hér á landi sem hafa fengið samþykkta fjölskyldusameiningu. Á meðan hörð og blóðug átök geisa á Gasasvæðinu bólar ekkert á sameiningunni.
Kröfur Palestínumannanna sem dvelja á Austurvelli eru þríþættar: Að stjórnvöld standi við fjölskyldusameiningarnar, að palestínskt flóttafólk sem hingað er komið fái hæli og að ráðherrar verði við ósk þeirra um fund, þ.e. utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Aðgerðarsinninn Askur Hrafn Hannesson segir við mbl.is að samtals hafi um fimmtíu manns tjaldað á Austurvelli um helgina Palestínumönnunum til stuðnings og „fleiri hundurð manns“ heimsótt aðgerðarsinnanna.
Frostlagið yfir Austurvelli gerði það aftur á móti tiltölulega erfitt að setja upp tjöldin, sem tókst þó á endanum „smá erfiðisverki“ að sögn Asks.
Askur segir að það hafi í raun verið gott andrúmsloft á Austurvelli yfir helgina þrátt fyrir erfiðar aðstæður
„Það var alveg góð stemning yfir nóttina. Við vorum í stóra tjaldinu að spila, drekka te og kaffi saman. Og líka ræða málin,“ segir aðgerðarsinninn.
Hann bætir við að nóttin hafi liðið án þess að nokkuð hafi í skorist, fyrir utan atvik þar sem nokkrir unglingspiltar köstuðu litlum flugeldum, svokölluðum „vítum“, að aðgerðarsinnunum en það hafði heppilega ekki alvarlegar afleiðingar í för með sér.