Telja einsýnt að ábyrgð Svandísar verði skoðuð

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja ráðherrann hafa farið gegn ráðleggingum …
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja ráðherrann hafa farið gegn ráðleggingum eigin sérfræðinga. Samsett mynd

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) telja einsýnt að ábyrgð matvælaráðherra á ólögmætu hvalveiðibanni verði tekin til skoðunar. Þá kalla þau eftir því að ríkið liðki fyrir því að skaðabætur verði greiddar til þeirra sem hlutu tjón af.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu samtakanna.

SFS vekja athygli á því að þau hafi frá byrjun bent á að bann matvælaráðherra á veiðum á langreyðum hafi ekki verið í samræmi við lög en samtökin öfluðu lögfræðilegs álits í kjölfar ákvörðunar ráðherra og birti í sumar. Niðurstaða LEX lögmannsstofu var sú að bannið hafi ekki verið reist á nægilega traustum lagagrundvelli.

Þá hafi verið gengið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum Hvals hf. er varða eignarrétt og atvinnufrelsi. 

„Til mikillar umhugsunar“

Samtökin telja þá rétt að minna á að við rýni þeirra gagna sem lágu að baki ákvörðun matvælaráðherra hafi ráðherrann virt að vettugi ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytis síns sem töldu meðal annars nauðsynlegt að rannsaka með sjálfstæðum hætti allar mögulegar tillögur til breytinga á reglugerð og áhrif þeirra, huga að meðalhófi og gæta að andmælarétti Hvals hf.

„Þegar hin ólögmæta ákvörðun ráðherra lá fyrir töldu sérfræðingar ráðuneytisins einnig rétt að vekja máls á mögulegri skaðabótaábyrgð sem af ákvörðun þessari gæti kviknað.

Að fyrrgreindu virtu verður ekki annað ráðið en að ásetningur ráðherra hafi staðið til þess að virða mikilsverð réttindi leyfishafa og skyldur framkvæmdavaldshafa að vettugi. Það er til mikillar umhugsunar þegar ráðherra gengur svo um grundvallarréttindi fólks og fyrirtækja,“ segir í niðurlagi yfirlýsingarinnar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert