„Þetta eru risastór tíðindi“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, fagnar mjög þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis að hækka gjaldskrá bæjarins um aðeins 2,5% en ekki 8% sem væri í takt við verðlagsþróun síðastliðna tólf mánuði.

„Þetta eru gríðarlega mikilvæg skilaboð frá bæjarstjórn Hveragerðis og með þessu vilja bæjaryfirvöld taka þátt í þessari þjóðarsátt ef þannig má að orði komast,“ segir Vilhjálmur við mbl.is.

Funda með fulltrúum sveitarfélaganna

Vilhjálmur segir að þessi skilaboð hljóti að vekja öll sveitarfélög vítt og breitt um landið að fylgja fordæmi Hvergerðinga.

„Við munum að öllum líkindum eiga fund með fulltrúum sveitarfélaganna í vikunni og því er mjög ánægjulegt að geta vitnað í þessa frábæru niðurstöðu bæjarstjórnar Hveragerðis. Þetta eru risastór tíðindi.“ 

Hann segir að ef vextir og verðbólga lækki hratt eins markmið þeirra geri ráð fyrir þá muni það skila miklu meiri ávinningi fyrir sveitarfélögin heldur en þær gjaldskrárhækkanir sem þau hafa tilkynnt.

Bíðum eftir svörum frá stjórnvöldum

Vilhjálmur ásamt fleirum úr forystusveit breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði, áttu fund með fimm ráðherrum ríkisstjórnarinnar á föstudaginn þar sem stjórnvöldum voru kynntar kröfur verkalýðsfélaganna.

„Nú stendur yfir greiningarvinna hjá ráðuneytunum. Við lögðum á borð stjórnvalda niðurnjörvaðar tölur út frá okkar viðmiðum og nú eru þau að kostnaðarmeta þessar tillögur okkar. Nú bíðum við bara eftir svörum og ég á alveg eins von á því að við fáum einhverjar meldingar frá þeim fyrr heldur en seinna,“ segir Vilhjálmur.

Á þriðjudaginn hittast breiðfylking stéttarfélaganna og Samtök atvinnulífsins á fundi með ríkissáttarsemjara en samningsaðilar funduðu tvisvar í þessari viku og voru báðir aðilar sammála um að góður gangur hafi verið í samningaviðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert