Veitingageirinn ber lítið traust til SA

SVEIT vill að veitingageirinn fái sérreglur um álagsgreiðslur enda frábrugðinn …
SVEIT vill að veitingageirinn fái sérreglur um álagsgreiðslur enda frábrugðinn öðrum starfsgreinum að nokkru leyti. Samsett mynd

Traust veitingageirans er lítið til Samtaka atvinnulífsins (SA), sem „misnota vald sitt“, að sögn framkvæmdastjóra Samtaka fyr­ir­tækja á veit­inga­markaði (SVEIT). Veitingageirinn vill sérreglur um álagsgreiðslur.

„SVEIT er með umboð sinna félagsmanna – það er alveg ótvírætt – til þess að semja um sína kjarasamninga. Samtök atvinnulífsins hafa samið um þessa samninga hingað til en við höfum ekki fengið neina aðkomu að þessum samningum. Traust veitingaþjónustugeirans er ekki hátt í garð Samtaka atvinnulífsins, vegna þess að þeir hafa einmitt ábyrgð á þeirri stöðu sem greinin er í núna,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT, í samtali við mbl.is.

SVEIT á um 170 aðildarfyrirtæki og Aðalgeir segir að með miðlunartillögu SA og Eflingar árið 2023 hafi launakostnaður numið um 50% af veltu fyrirtækja í veitingarekstri.

Aðalgeir Ásvaldsson framkvæmdastjóri SVEIT.
Aðalgeir Ásvaldsson framkvæmdastjóri SVEIT. Morgunblaðið/Arnþór Birkisson

„Verra ástand en Covid“

„Rekstarörðugleikarnir hafa í raun aldrei verið meiri. Þetta er eiginlega verra ástand en Covid,“ segir Aðalgeir og vísar til þess að árið 2023 hafi gjaldþrot í veitingageiranum verið fleiri. Gjaldþrotaskýrslu fyrir síðasta ársfjórðung 2023 hefur aftur á móti enn ekki verið skilað.

SVEIT vill að álagsgreiðslum verði breytt í veitingageiranum þannig að þeir tímar dags sem teljast til dagvinnu verði færðir svo að greitt álag verði minna.

Þannig væru dagvinnutímarnir mismunandi í bakaríum, þar sem fólk vinnur almennt snemma, og á veitingahúsum, þar sem fólk vinnur almennt seint. Aðalgeir bendir á að eins og staðan sé í dag séu 70% til 80% vinnutíma í veitingarekstri utan skilgreinds dagvinnutíma.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þurfa jakka sem passar

„Við erum svolítið föst í því að greiða gríðarlega hátt álag,“ segir hann.

„Auðvitað skiljum við að það þarf að borga álag. Það er erfitt að vinna klukkan átta á kvöldin og það er erfitt líka að taka hádegiskeyrsluna, því hún er líka erfið. Við þurfum bara jakka sem passar, því við göngum um í slitnum fötum og það míglekur allt saman,“ segir Aðalgeir.

Hann gerir því ekki athugasemd við hugsanlega 26 þúsund króna hækkun grunnlauna en segir að sú hækkun hafi þó vissulega áhrif á álagið, sem sé mikilvægt að breyta.

SA misnoti vald sitt

Hann segir að SVEIT, sem eru samtök sjálfstæðra atvinnurekenda og ekki hluti af SA, hafi leitast eftir því við SA að fá sæti við samningaborðið, án árangurs.

„Þau eru, finnst okkur, að misnota vald sitt. Við viljum ekki ganga í SA til þess eins að gera það sem þeir segja. SA hefur engan einkarétt á því að semja um kjör,“ segir hann.

„Okkur finnst að við þurfum aðeins að fá eitthvað um framtíð okkar að segja. Ég ætla ekki að sitja hér og segja að við séum að fara að semja um einhverja draumasamninga… en við þurfum að vera hluti af samtalinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert