75% gæsluvarðhaldsfanga voru útlendingar

Aldrei áður hefur hlutfall útlendinga sem afplána dóm á Íslandi …
Aldrei áður hefur hlutfall útlendinga sem afplána dóm á Íslandi verið meira en á síðasta ári. mbl.is//Sigurður Bogi

Hlutfall erlendra ríkisborgara sem afplána dóm á Íslandi hefur aldrei verið hærra en á liðnu ári. 

Sömuleiðis hefur hlutfall þeirra sem hófu gæsluvarðhald á Íslandi og eru erlendir ríkisborgarar aldrei verið hærra en árið 2023.

Þetta kemur fram í svörum Fangelsismálastofnunar.

Árið 2023 var hlutfall erlendra ríkisborgara 28% af þeim sem afplánuðu dóm hér á landi. Árið 2019 var sú tala 19% og breyttist sú tala lítið þar til á síðasta ári.

Samkvæmt svörum Fangelsismálastofnunar hefur hlutfall erlendra ríkisborgara sem afplána dóm hér á landi ekki verið hærra áður.

Fordæmalaust hlutfall gæsluvarðhaldsfanga útlendingar

Athygli vekur að 75% af öllum þeim sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald á síðasta ári voru erlendir ríkisborgarar. Það er einnig fordæmalaust hátt hlutfall erlendra ríkisborgara í gæsluvarðhaldi á Íslandi samkvæmt svörum Fangelsismálastofnunar.

Þessar tölur ná ekki yfir hversu lengi erlendir eða íslenskir ríkisborgarar sættu gæsluvarðhaldi.

84% fanga á Íslandi árið 2023 voru karlkyns og 16% fanga voru kvenkyns. Um er að ræða óbirtar tölur og gætu þær hugsanlega tekið smávegis breytingum samkvæmt Fangelsismálastofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert