Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir að menn séu vitaskuld áhyggjufullir vegna stöðunnar á Reykjanesskaganum. Sterkar vísbendingar eru um að stutt sé í að það það gjósi á nýjan leik.
„Við höfum auðvitað áhyggjur af stöðunni. Það er mælanlegur munur á hraða landrissins síðustu dagana og það virðist ekkert lát vera á því. Við eigum langt í land með það að varnargarðarnir við Grindavík verði tilbúnir fyrir einhverja alvöru áreynslu,“ segir Víðir við mbl.is.
Víðir segir að hluti garðsins sem sé verið að vinna við núna muni hjálpa eitthvað til en komi ekki til með að þola öflugan hraunstraum.
Verið er að setja upp tvo hluta Grindavíkurvarnargarðsins sem verður fullreistur í átta hlutum. Þeir hlutar sem rísa nú verða í hálfri hæð.
„Það var mikilvægt að fara af stað í gerð varnargarðanna og nota tímann í að undirbúa áframhaldið og við erum á fullu í því að skoða staðsetningar betur þannig að við getum lagt fram tillögu með góðri kostnaðaráætlun í framhaldinu sem styttist í að við gerum,“ segir Víðir.
Ekki er að heyra annað frá okkar helstu vísindamönnum en að þeir reikni með að gos verði?
„Við erum búin að sitja í tvo klukkutíma og fara yfir stöðuna með nokkuð stórum hópi og við erum líka að horfa til lengri tíma. Það má búast við svona atburðarás aftur og aftur. Jarðsagan segir okkur það að þetta geti endurtekið sig með einhverju millibili eða staðið yfir nokkuð lengi eins og núna,“ segir Víðir.
Hann segir að þótt það sé langlíklegast að það gjósi á Sundhnúkagígaröðinni þá vilji vísindamenn ekki útiloka að gos geti komið upp bæði inni í Grindavík og í Svartsengi.
„Við erum bara á tánum og allt kerfi okkar er í gangi,“ segir Víðir.