Katrín vildi heyra áherslur BSRB

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að ekki sé um þjóðarsátt að ræða nema allir komi að borðinu. Hún segir BSRB hafa áhuga á þjóðarsátt og tilbúið til viðræðna um gerð þjóðarsáttar, enda farsælasta leiðin til þess að ná fram raunverulegum breytingum að hennar mati.

Við höfum verið að benda á að það verði ekki þjóðarsátt nema allir komi að borðinu. Ef að það er meginmarkmiðið að gera þjóðarsátt þá verða öll félög innan ASÍ, BSRB, BHM, KÍ og síðan Samtök Atvinnulífsins, sveitarfélögin og ríkið að taka þátt í því samtali. Öðruvísi er ekki hægt að kalla þetta þjóðarsátt,“ segir Sonja og bætir við að þá sé um að ræða hefðbundna kjarasamninga. 

Stefnir í hefðbundna kjarasamninga

Aðspurð segir Sonja framhaldið hjá BSRB óljóst þar sem samtal allra um þjóðarsátt hefur ekki átt sér stað.  

„Það samtal er auðvitað ekki hafið þannig að eins og staðan er núna þá stefnir frekar í að þetta verði hefðbundnir kjarasamningar þar sem einhverjir taka sig saman og gera þá kröfur á stjórnvöld samhliða.“  

Hvað þarf að gerast til að þetta verði þjóðarsátt?

„Þá þyrfti að kalla saman alla aðila vinnumarkaðarins, sem eru bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði og eru þá undir hatti þessara heildarsamtaka. Sömuleiðis höfum við talað fyrir því að Öryrkjabandalagið, félag eldri borgara og stjórnvöld fái aðkomu.“  

Ættu stjórnvöld að kalla hópinn saman?

„Það er svo sem, þetta eru allt aðilar máls, stjórnvöld auðvitað bæði sem stjórnvöld en líka sem viðsemjendur okkar hjá ríki og sveitarfélögum. Þannig að það getur hver sem er átt frumkvæði að því. Það er bara spurning hvort að það sé vilji fyrir því að fara þá leið.“ 

Framhaldið á eftir að skýrast

Er það eitthvað sem þú munt kalla eftir að verði gert?

„Ég var svolítið að viðra þetta við forsætisráðherra svo ætlum við að hittast líka á morgun, launagreiðendur og samtök launafólks á opinberum vinnumarkaði, aðeins að velta fyrir okkur stöðunni og ræða saman. Hvað hver og einn er að leggja áherslu á og hvernig við myndum vilja haga framhaldinu. Þannig að það á svolítið eftir að skýrast,“ segir Sonja sem átti samtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag. 

Aðspurð í hvaða tilgangi samtal hennar og Katrínar hafi þjónað segist Sonja hafa skilið samtalið þannig að Katrín hafi vilja heyra áherslu BSRB í aðdraganda kjarasamninga. Kanna hvort að kröfur BSRB yrðu sambærilegar kröfum bandalags stéttarfélaga, hvað bæri saman og hvað myndi mögulega bera á milli, segir hún. 

Það verður allt að ganga upp

Sonja segir BSRB leggja ríka áherslu á að það sé ekki einungis á ábyrgð launafólks að stemma stigum við verðbólgunni. Það séu fleiri þættir sem hafi áhrif á verðbólgu, þar með ákvörðun vaxta hverju sinni, því þurfi allir að leggja sitt af mörkum ef þjóðarsáttin á að ganga upp. 

„Stór forsenda þess að það séu gerðar hóflegar launakröfur er að allt gangi upp, að við séum raunverulega að tryggja það að það sé verið að stemma stigum við verðbólgunni. Það þýðir að það megi ekki leiða beint út í verðlagshækkanir eða hafa áhrif á verðlag, ef launahækkanir eiga að vera hóflegar.“

Spurð hvaða kröfur BSRB mun gera á stjórnvöld segir Sonja samtökin leggja áherslu á tekjutilfærslukerfin. Þannig að það sé verið að beina stuðningnum þangað sem þörfin er mest. Það þarf að styðja fólk í mismunandi stöðu með mismunandi hætti, segir hún. 

„Eins höfum við verið með kröfu um að endurmeta virði kvennastarfa og sömuleiðis að það þurfi að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla,“ segir Sonja og útskýrir að það feli í sér að lögfesta rétt barna til leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi, líkt og gert er á hinum Norðurlöndunum, til að tryggja að börn komist að á leikskólum að loknu fæðingarorlofi.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert