Magnús ekki vanhæfur

Í rökstuðningi með svari skrifstofu borgarstjórnar til forsætisnefndar segir að …
Í rökstuðningi með svari skrifstofu borgarstjórnar til forsætisnefndar segir að hvorki velferðarráð né mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð fari með nokkuð lögbundið hlutverk samkvæmt lögum um útlendinga né tengist verksvið ráðanna nokkrum einstaklingsmálum flóttamanna sem gætu tengst skjólstæðingum Magnúsar Davíðs Norðdahl í störfum hans sem lögmanns. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmannsstörf borgarfulltrúa Pírata, Magnúsar Davíðs Norðdahl, hafa ekki í för með sér að hann sé vanhæfur til að taka sæti og fjalla um málefni flóttamanna á vettvangi velferðarráðs eða mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs.

Þetta kemur fram í svari skrifstofu borgarstjórnar sem ber ábyrgð á þjónustu við borgarfulltrúa og aðra kjörna fulltrúa, þar með talið lögfræðilega ráðgjöf vegna hæfis.

Geti trauðla setið í ráðum um málefni flóttafólks

Á fundi borgarráðs í september var lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

„Líkt og fram kom í fjölmiðlum í gær, 20. september, er það áhyggjuefni að borgarfulltrúinn Magnús Davíð Norðdahl, formaður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs og nefndarmaður í velferðarráði, hafi leitast við að dylja hagsmuni sína í málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd með því að geta þess í engu að hann sé launaður fyrirsvarsmaður fólks í þeirri stöðu. Borgarfulltrúinn getur trauðla setið í þeim tveim ráðum Reykjavíkurborgar sem fjalla hvað mest um málefni þess fólks.

Óskað er því eftir áliti borgarlögmanns um hæfi borgarfulltrúans og hvort eðlilegt sé að skipa borgarfulltrúann í þá stöðu að draga megi óhlutdrægni hans í efa. Því markmið okkar hlýtur að vera að stuðlað sé að vandaðri ákvörðunartöku, trúverðugleika og því að stjórnsýsla sveitarfélagsins sé hlutlæg og málefnaleg.

Magnús Davíð Norðdahl, formaður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs og nefndarmaður í …
Magnús Davíð Norðdahl, formaður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs og nefndarmaður í velferðarráði Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

Uppfylli öll kjörgengisskilyrði

Fyrirspurninni var vísað til meðferðar forsætisnefndar, en í 50 gr. samþykktar um stjórn
Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar kemur fram að nefndin fjalli um málefni
kjörinna fulltrúa auk þess sem henni beri að fjalla um álitamál varðandi málsmeðferð í
stjórnsýslu og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar sem til hennar er vísað.

Í niðurstöðu skrifstofu borgarstjórnar kemur fram að Magnús Davíð hafi verið kosinn til að taka sæti í borgarstjórn Reykjavíkur og uppfylli öll kjörgengisskilyrði í ráð og nefndir. Þar kemur þó einnig fram að honum beri að sjálfsögðu að gæta að hæfi sínu vegna mögulegra tengsla við einstaklinga sem séu aðilar að málum á vettvangi ráðanna og/eða sækja um styrki hjá Reykjavíkurborg, á sama hátt og allir kjörnir fulltrúar sem taka slíkar ákvarðanir á þeim vettvangi.

Í rökstuðningi með svari skrifstofu borgarstjórnar til forsætisnefndar segir að hvorki velferðarráð né mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð fari með nokkuð lögbundið hlutverk samkvæmt lögum um útlendinga né tengist verksvið ráðanna nokkrum einstaklingsmálum flóttamanna sem gætu tengst skjólstæðingum Magnúsar Davíðs Norðdahl í störfum hans sem lögmanns.

Segir jafnframt að snertiflötur lögmannsstarfa borgarfulltrúans sé reyndar vandfundinn þegar ákvæði laga um útlendinga og samþykktir ráðanna eru skoðaðar og þar sem nánari skýringar á mögulegum vanhæfisástæðum sé ekki að finna í fyrirspurninni sjálfri, hafi ekki verið unnt að skoða málið frá öðrum sjónarhóli en með því að rýna formlegt hlutverk viðkomandi ráða með tilliti til eðlis starfa lögmannsstarfa Magnúsar.

Verða að teljast bæði sérstakir og verulegir

„Ekki er séð að fyrir liggi nokkrar vísbendingar um það að tilteknir hagsmunir borgarfulltrúans til að hafa áhrif á niðurstöðu mála séu í reynd fyrir hendi. Athygli er jafnframt vakin á því að þeir hagsmunir sem um ræðir verði að teljast bæði sérstakir og verulegir til að þeir geti leitt til vanhæfis,“ eins og segir í niðurstöðu skrifstofu borgarstjórnar.

Á sama fundi var lögð fram önnur fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úthlutun fjármuna og bókanir vegna málefna flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði og velferðarráði og var svar við henni lagt fram samhliða.

Þar segir skýrt að eðlilegar ástæður séu fyrir því að engar upplýsingar hafi verið að finna í
valkvæðri hagsmunaskráningu borgarfulltrúans á vef Reykjavíkurborgar.

„Skrifstofa borgarstjórnar mun vera í sambandi við regluvörð Reykjavíkurborgar og óska eftir samstarfi til að auðvelda skil borgarfulltrúa á þeim upplýsingum sem þeim beri að afhenda vegna innherjaskráningar annars vegar og valkvæðri skráningu á fjárhagslegum hagsmunum
borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar.“

Forsætisnefnd geri tillögu að ferli vegna ábendinga

Í niðurlagi niðurstöðukafla svars skrifstofu borgarstjórnar til forsætisnefndar segir að sveitarstjórnarlögin geri ekki ráð fyrir því að rannsóknir á hæfi einstakra borgarfulltrúa fari fram á vettvangi ráða og nefnda Reykjavíkurborgar í formi fyrirspurna.

„Er þess óskað að forsætisnefnd taki málið til skoðunar og geri tillögu að ferli vegna ábendinga um mögulegt vanhæfi einstaka kjörinna fulltrúa,“ eins og segir í svari skrifstofu borgarstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert