Mjög eðlilegt að ráðherra segi af sér

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, Hanna …
Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telja ekki óeðlilegt að matvælaráðherra segi af sér. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn/Eggert

„Það er mjög eðlilegt,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurður hvort honum þætti eðlilegt að matvælaráðherra segði af sér. Spurður hvernig staða ríkisstjórnarinnar blasi við honum eftir álitið segir hann hana óbreytta og afstöðu Pírata til hennar þá sömu og áður. „Þau hanga saman á lyginni,“ segir Björn.

Um viðbrögð Vinstri-grænna við áliti umboðsmanns Alþingis, segir hann um nákvæmlega sömu flóttataktík og Bjarni notaði í Íslandsbankamálinu að ræða. Ákveðna vörn sem sé pakkað í.

Hvað finnst Birni um rök ráðherrans um orðalag álitsins og að hvalveiðilögin séu gömul?

„Það er ekkert sem kemur mér á óvart í þessu.“

Verður rætt á þingflokksfundi í dag

„Við höfum ekki farið yfir þau mál í smáatriðum,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, spurð hvort þingflokkurinn hafi tekið afstöðu til þess hvort krafist yrði afsagnar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, lögð fram vantrauststillaga eða afstaða tekin til tillögu um það ef fram kæmi.

Þingflokkur Viðreisnar fundar klukkan eitt í dag, en að sögn Hönnu Katrínar verður álit umboðsmanns Alþingis meðal annars til umræðu á fundinum.

„Mér finnst þetta mál fyrst og fremst liggja hjá stjórnarmeirihlutanum núna. Það er þeirra að ákveða hvernig þau ætla að koma sér út úr þessu máli,“ segir Hanna Katrín og segir Viðreisn bíða átekta eftir útspili stjórnarmeirihlutans. Spurð hvort henni þætti eðlilegt að matvælaráðherra segði af sér svarar Hanna að sér þætti ekki óeðlilegt að það yrði eitt af því sem yrði skoðað þegar þing kemur saman á ný.

Þingið kann að þurfa að grípa inn í

„Mér finnst eðlilegast að þeir sem bera ábyrgð á ríkisstjórnarsetu Svandísar geri okkur grein fyrir því hvernig þeir ætli að taka á þessu,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Ef ríkisstjórnin reynist ófær um það eins og annað gæti þingið þurft að grípa inn í,“ bætir hann við og gefur til kynna að vantrauststillaga vofi yfir matvælaráðherra.

„Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að láta það viðgangast að formaður þeirra segi sig frá ráðherraembætti en Vinstri-grænir séu ekki undir sömu sök seldir, í sams konar eða afdrifaríkara máli, virðast þeir endanlega búnir að gefast upp.“

Hann minnir á að Svandís sé góðkunningi dómstóla og eftirlitsstofnana til margra ára og telur dóma eða ákúrur engu máli skipta þegar hún eigi í hlut, enda sé hún í betri pólitík en aðrir.

„Ef þetta fær að viðgangast hjá henni er jafnræði fyrir lögum og lýðræðisleg stjórnskipan ekki lengur prinsippatriði að mati ríkisstjórnarinnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert