Töldu ekki þörf á að loka veginum vegna hálku

Grindvíkingar hringdu að minnsta kosti tvisvar í Vegagerðina vegna áhyggna …
Grindvíkingar hringdu að minnsta kosti tvisvar í Vegagerðina vegna áhyggna af hálku á veginum, samkvæmt ábendingu sem mbl.is barst. Samsett mynd/Sigurður Bogi/Sisi

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir Vegagerðina ekki hafa metið sem svo að loka þyrfti Grindavíkurvegi vegna hálku á föstudag. Hjón á stjötugsaldri létust þegar tvö ökutæki lentu þar saman í hálku.

„Það voru ekki þannig aðstæður að það þyrfti að loka veginum, en það var bíll búinn að fara þrisvar með hálkuvörn frá því um nóttina og fram á morgun,“ segir Pétur í samtali við mbl.is.

„Eftirlitið okkar kallaði út annan bíl upp úr klukkan tíu, eftir að það kom éljabakki eða eitthvað slíkt, en sá bíll var ekki búinn að fara yfir kaflann þar sem slysið var.“

Hann segir hluta vandans vera að takmörkuð umferð hafi verið inn og út úr Grindavík, en til þess að hálkuvarnarsaltið virki þurfi umferð. 

Grindvíkingar hringdu í tvígang vegna hálkunnar

mbl.is barst ábending um að íbúar í Grindavík hefðu í tvígang hringt í Vegagerðina og sagt að loka þyrfti veginum vegna flughálku á Grindavíkurvegi á föstudagsmorgun, sama dag og slys á veginum varð tveimur að bana. 

Segir Pétur að ekki sé haldið utan um sérstaka ábendingaskrá og hann geti því ekki sagt til um hverjir eða hve margir hafi hringt inn.

„Við fáum náttúrulega mjög gjarnan ábendingar frá almenningi og hvetjum almenning til þess að hringja inn og tökum mark á því. En eins og í þessu tilfelli þá er bara eftirlitsbíll á ferðinni,“ segir Pétur.

Bætir hann við að Vegagerðin reyni einnig að bregðast við vondu veðri fyrirfram, út frá veðurmælingartækjum. 

Vegurinn á þjónustustigi 1

Spurður hvort ekki hafi komið til greina að loka veginum, eins og Vegagerðin geri þegar aðstæður séu slæmar, segir Pétur eftirlit Vegagerðarinnar ekki hafa metið sem svo að þörf væri á lokun. 

„Okkar eftirlit hefur ekki metið aðstæður þannig. Það er stærra mál að fara að loka vegi.“

Hann segir hálku víða á landinu og að Vegagerðin bregðist við eftir bestu getu. Grindavíkurvegur sé á þjónustustigi 1 og sé því sinnt sérstaklega vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert