Vantrauststillaga í mótun - Svandís á að segja af sér

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eyþór

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra eigi að segja af sér. Hún segist vera með í mótun vantrauststillögu gegn Svandísi þegar þing kemur saman þann 22. þessa mánaðar.

Spjótin hafa staðið á Svandísi eftir álit umboðsmanns Alþings um fyrirvaralaust hvalveiðibann Svandísar síðastliðið sumar og viðbragða ráðherrans og flokks hennar í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis, sem birt var á föstudaginn.

Meiri líkur en minni

„Það liggur alveg á borðinu að vantrauststillagan gegn Svandísi er í verulegri mótun og það eru mun meiri líkur en minni að ég leggi hana fram,“ segir Inga Sæland við mbl.is.

Inga segir að Flokkur fólksins sé samstíga en spurning um hvort öll stjórnarandstaðan verði samstíga með vantrauststillöguna.

„Það er mjög erfitt á stjórnarheimilinu eftir þetta álit umboðsmanns Alþingis. Það hafa komið allskonar yfirlýsingar bæði frá Sjálfstæðismönnum og fleirum og það er orðið erfitt fyrir þá að snúa frá öllum þeim stóru yfirlýsingum sem þeir hafa gefið gagnvart ráðherranum,“ segir Inga.

Inga segir álit umboðsmanns Alþingis hafi alls ekki komið sér á óvart.

„Þetta er mjög skýrt álit. Hún braut á lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Hún gekk gegn meðalhófi og atvinnufrelsi og var að brjóta stjórnarskrána. Það kom öllum á óvart að hún skildi koma með þessa gjörninga rétt áður en flotinn átti að leggja úr landi. Tæpum þremur vikum áður hafði hún sagt að hún hefði engar lagalega heimildir til þess að grípa inní að svo stöddu og að Hvalur hf. hefði veiðileyfi. Allt í einu andstætt öllu því sem henni hafði verið ráðlagt og vöruð við af sérfræðingum þá leggur hún undir sig hausinn og kemur með þessar reglugerðir,“ segir Inga.

Á ekki að vera með hástemmdar yfirlýsingar

Inga segir að ráðherrann sé að baka ríkissjóði hundruða milljóna króna skaðabótaskyldu og hún segir að Svandísi eigi ekki að vera með hástemmdar yfirlýsingar um að hún þurfi ekki að segja af sér heldur eigi hún að axla ábyrgð og segja af sér.

„Það mun verða mjög erfitt fyrir stjórnarliðana að fella þetta vantraust miðað við allar yfirlýsingarnar sem hafa komið fram og þá sérstaklega frá Sjálfstæðisflokknum. Ríkisstjórnin mun nýta sér það hún segist þurfa að standa saman í gegnum kjarasamningana þótt það verði ekki lengra nema það. En þá kemur líka í ljós trúverðugleiki þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert