Verulegar líkur á eldgosi

Enn rýkur úr hrauninu við Sundhnúkagígaröðina norðan Grindavíkur, sem mótar …
Enn rýkur úr hrauninu við Sundhnúkagígaröðina norðan Grindavíkur, sem mótar hér vel fyrir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lík­ur á eld­gosi við Sund­hnúkagígaröðina á Reykja­nesskaga eru veru­leg­ar.

Þetta er mat Magnús­ar Tuma Guðmunds­son­ar, pró­fess­ors í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands.

„Landrisið held­ur áfram við Svartsengi og stöðin þar er kom­in í sömu hæð og áður, og er jafn­vel hærri. En aðrar stöðvar þarna í kring eins og Eld­vörp­in eru ekki kom­in í sömu stöðu og fyr­ir síðasta gos. Þró­un­in er sú sama og verið hef­ur,“ seg­ir Magnús Tumi við mbl.is.

Magnús Tumi Guðmunds­son, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Ekki fyllst að sama marki og fyr­ir 10. nóv­em­ber

Haft er eft­ir Þor­valdi Þórðar­syni, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, Í Morg­un­blaðinu í dag að kviku­geymsl­an sé að fyll­ast og að hún sé kom­in að þol­mörk­um.

Spurður hvort hann meti stöðuna með þeim hætti seg­ir Magnús Tumi:

„Það mun koma í ljós. Við erum búin að sjá núna tvo at­b­urði. Í þeim fyrri fóru út 100 millj­ón­ir rúm­metra af kviku en í þeim seinni var það tí­falt minna. Hún er ekki búin að fyll­ast að sama marki eins og hún var fyr­ir 10. nóv­em­ber og hún er tölu­vert veik­ari, þar sem veik­leik­inn er gang­ur­inn. Þess vegna þarf að vera við því búin að það geti gosið hvenær sem er,“ seg­ir Magnús Tumi.

Bálhvasst var við gosstöðvarnar í desember, svo hvasst að erfitt …
Bál­hvasst var við gosstöðvarn­ar í des­em­ber, svo hvasst að erfitt var að standa upp­rétt­ur í rok­inu. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Senni­lega mun ekki líða lang­ur tími

Magnús seg­ir að lík­ur á eld­gosi séu veru­leg­ar. Á meðan landrisið haldi áfram auk­ist lík­urn­ar á gosi. Hann seg­ir ekki auðvelt að nefna tíma­setn­ingu en senni­lega muni ekki líða lang­ur tími. Hann seg­ir að gosið gæti orðið sam­bæri­legt því sem braust út mánu­dag­inn 18. des­em­ber.

„Ef við ber­um gosið 18. des­em­ber sam­an við gos­in í Fagra­dals­fjalli þá var magnið minnst. En hvað varðar styrk í upp­hafi þá var hann marg­falt meiri. Gosið 18. des­em­ber kom mjög snöggt og stóð yfir í stutt­an tíma. Þar var einn kviku­geym­ir sem byggðist upp þrýst­ing­ur í. Hann rifnaði með lát­um og það flæddi hratt úr hon­um,“ seg­ir Magnús.

„Þetta er al­geng hegðun í eld­stöðvum, sem við sjá­um núna. Sú sem við sáum í Fagra­dals­fjalli er miklu óal­geng­ari. Það byrjaði sem lítið gos og hélt lengi áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka