Verulegar líkur á eldgosi

Enn rýkur úr hrauninu við Sundhnúkagígaröðina norðan Grindavíkur, sem mótar …
Enn rýkur úr hrauninu við Sundhnúkagígaröðina norðan Grindavíkur, sem mótar hér vel fyrir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkur á eldgosi við Sundhnúkagígaröðina á Reykjanesskaga eru verulegar.

Þetta er mat Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

„Landrisið heldur áfram við Svartsengi og stöðin þar er komin í sömu hæð og áður, og er jafnvel hærri. En aðrar stöðvar þarna í kring eins og Eldvörpin eru ekki komin í sömu stöðu og fyrir síðasta gos. Þróunin er sú sama og verið hefur,“ segir Magnús Tumi við mbl.is.

Magnús Tumi Guðmunds­son, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmunds­son, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki fyllst að sama marki og fyrir 10. nóvember

Haft er eftir Þorvaldi Þórðarsyni, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, Í Morgunblaðinu í dag að kvikugeymslan sé að fyllast og að hún sé komin að þolmörkum.

Spurður hvort hann meti stöðuna með þeim hætti segir Magnús Tumi:

„Það mun koma í ljós. Við erum búin að sjá núna tvo atburði. Í þeim fyrri fóru út 100 milljónir rúmmetra af kviku en í þeim seinni var það tífalt minna. Hún er ekki búin að fyllast að sama marki eins og hún var fyrir 10. nóvember og hún er töluvert veikari, þar sem veikleikinn er gangurinn. Þess vegna þarf að vera við því búin að það geti gosið hvenær sem er,“ segir Magnús Tumi.

Bálhvasst var við gosstöðvarnar í desember, svo hvasst að erfitt …
Bálhvasst var við gosstöðvarnar í desember, svo hvasst að erfitt var að standa uppréttur í rokinu. mbl.is/Árni Sæberg

Sennilega mun ekki líða langur tími

Magnús segir að líkur á eldgosi séu verulegar. Á meðan landrisið haldi áfram aukist líkurnar á gosi. Hann segir ekki auðvelt að nefna tímasetningu en sennilega muni ekki líða langur tími. Hann segir að gosið gæti orðið sambærilegt því sem braust út mánudaginn 18. desember.

„Ef við berum gosið 18. desember saman við gosin í Fagradalsfjalli þá var magnið minnst. En hvað varðar styrk í upphafi þá var hann margfalt meiri. Gosið 18. desember kom mjög snöggt og stóð yfir í stuttan tíma. Þar var einn kvikugeymir sem byggðist upp þrýstingur í. Hann rifnaði með látum og það flæddi hratt úr honum,“ segir Magnús.

„Þetta er algeng hegðun í eldstöðvum, sem við sjáum núna. Sú sem við sáum í Fagradalsfjalli er miklu óalgengari. Það byrjaði sem lítið gos og hélt lengi áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert