Vill ekki senda grunnskólum misvísandi niðurstöður

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri menntamálastofnunar, kynnir niðurstöður Pisa-könnunarinnar.
Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri menntamálastofnunar, kynnir niðurstöður Pisa-könnunarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunar, segir stofnunina ekki búa yfir gögnum sem sýni frammistöðu einstakra grunnskóla eða sveitarfélaga í PISA-könnunninni, utan Reykjavíkur. 

Tilgangur PISA sé að gefa heildarmynd af hæfni allra 15 ára nemenda í þátttökulöndum. Þannig verði niðurstöður könnunarinnar aldrei með þeim hætti að þeim sé ætlað að sýna marktækar niðurstöður sem greinanlegar séu niður á ákveðna skóla.

Skólakerfið minna á Íslandi en víða annars staðar

Eist­land er efst Evr­ópu­landa í nýj­um niður­stöðum PISA-könn­un­ar­inn­ar. Krist­ina Kallas, mennta­málaráðherra lands­ins, sagði í samtali við mbl.is í desember, mik­il­vægt að upp­lýsa skól­ana um gengi nem­enda þeirra, til að skól­arn­ir geti metið styrk­leika sína og horft til þess sem þarf að bæta.

Telur hún að allt lær­dóms­ferli feli í sér bak­slag og end­ur­mat, öðru­vísi verði eng­in framþróun. Því kjósi Eist­ar að horfa á PISA-könnunina sem end­ur­gjöf á mennta­kerfið og það mót­læti sem mennta­kerfið standi frammi fyr­ir.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvert og eitt próf í raun úrtak

Þórdís segir að á Íslandi sé skólakerfið lítið og til dæmis láti 66% skólanna 30 börn eða færri þreyta prófið.

Til að ná markmiði sínu leggi PISA mikinn fjölda prófverkefna af hverju sviði fyrir nemendur. Sem dæmi hafi rúmlega 240 prófverkefni verið notuð til að meta stærðfræðilæsi í PISA 2022.

„Það tekur alls 12 klukkustundir að þreyta allt prófið sem er þrískipt. Þannig að flestir sem taka prófið taka bara einn hluta þess. Hvert og eitt próf sem hvert og eitt barn tekur er þannig í raun úrtak úr prófinu.

Það sem meira er þá lagar prófið sig að þeim sem er að taka það. Þannig byrjar það einhvers staðar í miðjunni og ef viðkomandi á erfitt með að svara spurningunum verða þær léttari og ef öllum spurningum er svarað rétt fara þær smátt og smátt að þyngjast.

Þannig gæti þess vegna eitt barn tekið náttúruvísindahlutann og eitt barn stærðfræðihlutann eða tvö hvorn hluta í einum ákveðnum skóla. Ætlum við þá að bera ábyrgð á því að senda þær niðurstöður í skólann sem eru ekki réttar?“

Óábyrgt að gefa óáreiðanlegar vísbendingar

Þórdís segir því hafa verið haldið fram að niðurstöðurnar gefi vísbendingar en að sér finnist óábyrgt að gefa skólum vísbendingar um eitthvað sem er kannski ekki rétt.

„Á skóli sem fær niðurstöður þess efnis að allt sé í lagi að halda það þegar það er það í raun og veru ekki eða á skóli sem fær niðurstöður um að eitthvað megi bæta að fara eftir því þegar raunin er að allt sé í góðu lagi þar?“

Nefnir hún að á Spáni sé niðurstöðum aðeins skipt niður á stór svæði og að Danir, Svíar og Norðmenn skipti þeim ekki upp og aldrei niður á skóla.

„Ef þú lest allt frá OECD að þá er alls staðar algjörlega kristaltært að þetta próf er hannað til að skoða kerfi landa. Svo eru þeir með sérstök próf sem heita PISA for schools og þau eru hönnuð til að taka próf fyrir skóla en ekki fyrir landið allt.“

mbl.is/Ernir

Greina niðurstöðurnar í stóru myndinni

Þórdís segir að það sem þurfi að gera betur sé að nota tímann til að greina niðurstöðurnar í stóru myndinni og þar segist hún hafa áhuga á að gera miklu betur, sem hún telur að myndi nýtast vel.

Þá kemur Þórdís inn á persónuverndarsjónarmið. Í PISA er spurt um ýmsa þætti sem tengjast meðal annars foreldrum, heimilisaðstæðum og bakgrunni nemenda og því þurfi að huga sérstaklega að rekjanleika.

Segir hún að ef upplýsingar væru veittar um skóla eða sveitarfélög verði rekjanleiki auðveldari og þannig verði ekki hægt að útiloka að einhver með slíkar upplýsingar geti rekið svör til einstakra nemenda. 

Fjöldi nemenda langt undir lágmarkinu

Könnunin var lögð fyrir um 3.200 nemendur sem var um 80% af nemendum í tíunda bekk árið 2022 en til samanburðar var hún lögð fyrir um 10 þúsund nemendur í Finnalndi.

„Samkvæmt OECD er talað um að 6 þúsund nemendur sé lágmark en þar sem við erum með allt þýðið erum við í aðeins annarri stöðu, það breytir því þó ekki að nemendur taka ekki allir sama prófið.“

Ekki hægt að fullyrða um orsakasamhengi

Niðurstöður PISA hafi farið niður á við eftir að samræmd próf voru afnumin en Þórdís segir ómögulegt að segja hvort orsakasamhengi sé þar á milli.

Spurð hvort samræmd próf verði lögð fyrir á ný svarar Þórdís að lögð hafi verið fyrir dæmi í lesfimi þrisvar á ári, fyrir hvern árgang grunnskólanna

„Þetta eru þá stutt lítil hnitmiðuð próf, þau yrðu þá auðvitað samræmd að því leyti að þau koma frá einni stofnun en þau eru ekki samræmd með þeim hætti að allir setjist niður saman með pennann eða tölvuna klukkan þetta og svo sé framtíð þeirra ráðin á því augnabliki. Þetta yrðu stöðu og framvindupróf sem myndu sýna bæði stöðuna á barninu og hver framvindan er.“

Eins og að mæla blóðþrýsting til að kanna hita

Þórdís segir ekki mega nota PISA í eitthvað annað en prófinu er ætlað.

„Við þurfum að nota réttu mælitækin í það sem við viljum sjá. Annað væri eins og að mæla blóðþrýsting til að kanna hvort maður væri með hita. Það sem við sjáum út úr niðurstöðunum er að við erum alltaf að fara niður á við en það á ekki bara við um Ísland.“

Kemur til greina að fara í PISA for schools?

„Ég get ekki svarað því á þessari stundu en það sem við ætlum að gera er að aðstoða skóla betur við að meta stöðu sína og framfarir með fleiri matsferlum. Á hverju ári er einnig æskulýðsrannsókn framkvæmd þannig að það á að reyna að hanna betra mælaborð fyrir skólana og aðstoða þau með þetta mat.“

Að lokum hnykkir Þórdís á því að PISA-könnnunin sé ekki hönnuð til að færa niðurstöðurnar yfir á ákveðna hópa. Þó einhver lönd geri það þá sé ekki víst að þær niðurstöður séu marktækar.

„Það er alveg skýrt að prófið er hannað og uppbyggt til að skoða og bera saman kerfi landa og ekkert annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert