„Alltaf ýmislegt sem kemur til greina í pólitík“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vill ekki tjá sig um stöðu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í ríkisstjórninni í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis um fyrirvaralaust hvalveiðibann Svandísar liðið sumar.

„Hún hefur sagt að álitið sé í yfirferð og í skoðun í ráðuneytinu og ég tel eðlilegt að leyfa því að hafa sinn tíma. Álit umboðsmannsins er í samræmi við það sem við höfum bent á og snýst á endanum ekki um hvalveiðar heldur stjórnarskrárvarin réttindi um atvinnufrelsi óháð því um hvern ræðir. Það eru ákveðnar reglur sem þarf að fylgja,“ sagði Þórdís Kolbrún við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag.

Hún segir að næstu skref liggi ekki fyrir og muni bara koma í ljós en vill að öðru leyti ekki úttala sig um stöðu Svandísar að þessu sinni.

Fór ekki með til pólitískra sátta við ríkisstjórnarborðið

Spurð hvort staða Svandísar í ríkisstjórninni sé ekki orðin veik svarar Þórdís Kolbrún:

„Hér er um að ræða ákvörðun sem hún tók án þess að fara með það fyrir þingið og í rauninni ekki til einhverja pólitískra sátta við ríkisstjórnarborðið. Þau sjónarmið sem við höfðum uppi og höfðum áhyggjur af birtast í áliti umboðsmanns Alþingis.  Auðvitað hefur það allt áhrif en málið er í frekari meðferð og ég ætla að leyfa þeim sem þurfa að vinna þá vinnu að gera það.“

Spurð hvort henni finnst koma til greina að Svandís skipti um ráðuneyti kjósi hún að halda ótrauð áfram í ríkisstjórninni eins og hún hefur sagt segir Þórdís Kolbrún:

„Það er alltaf ýmislegt sem kemur til greina í pólitík. Við tökum bara eitt skref í einu. Hún er með ákveðna vinnu í gangi hjá sér sem hún fær að minni hálfu frið til þess að vinna.“

Þórdís segir að ríkisstjórnin sé búin að starfa saman í rúm sex ár þar sem margt hafi gerst og að árangur hafi náðst í mörgum stórum málum til hagsbóta fyrir fólk sem á endanum skipti öllu máli.

„Við erum í þjónustuhlutverki fyrir fólkið í landinu. Við tókum okkur saman og settum okkur verkefni til þess að gera það með þessum góða hópi í stjórnarmeirihlutanum og það er ennþá verkefni sem þarf að finna lausn á og ná saman um og lendingu.“

Þórdís segir að efnahagsmálin séu þar langstærst og hún nefnir einnig kjaraviðræðurnar og útlendingamálin. Hún segir sannfærð um að þessi ríkisstjórn sé vel samsett til að ná saman um þau verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert