„Ég er alveg tilbúinn til þess að ræða við fólk, að sjálfsögðu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, inntur eftir því hvort hann hyggist ræða við mótmælendur á Austurvelli líkt og óskað hefur verið eftir.
„Ég hef hins vegar litið svo á að sá endi sem snýr að mér liggur algjörlega fyrir. Ég hef vissulega fengið beiðni um fund og tek þá beiðni að sjálfsögðu alvarlega og er að skoða það,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is
„Auðvitað sýnir maður því mikinn skilning að fólk hafi áhyggjur af sínum nánustu sem þarna eru. Þetta er hræðileg mannúðarkrísa sem þarna er uppi, sem maður vill gjarnan sjá að leysist,“ segir Guðmundur.
Hann segir að sér þó bæði ljúft og skylt að árétta hvernig ferlið í kringum fjölskyldusameiningar fari fram. Útlendingastofnun hafi það hlutverk að afgreiða beiðnir um sameiningar og liggi nú fyrir um 100 samþykktar beiðnir um sameiningar palestínskra fjölskyldna.
Það þýði þó ekki að íslenska ríkið geti aðstoðað fólk við að komast út af Gasasvæðinu. Til þess þyrfti diplómatíska aðkomu og er það er utanríkisráðuneytið sem fer með diplómatísk samskipti.
Komi fólkið sér sjálft til Kaíró í Egyptalandi geti félagsráðuneytið aftur á móti tryggt, í gegnum Vinnumálastofnun og Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina, að fólkið komist til Íslands.
Spurður hvort hann hafi rætt málið við Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra, sem ekki hefur tjáð sig opinberlega um mótmælin síðan þau hófust, segir Guðmundur að ráðherranefnd um útlendingamál hafi komið saman og rætt málin á milli jóla og nýárs. Þar hafi komið fram að utanríkisráðuneytið sé nú í ferli við að afla gagna um hvernig önnur ríki hagi slíkum málum.
„Það sem lá fyrir á þessum fundi var til dæmis það að önnur Norðurlandaríki hafi ekki samþykkt neinar fjölskyldusameiningar síðan 7. október, ólíkt því sem Ísland hefur gert,“ segir Guðmundur.
Einnig hafi þar fram komið að norræn stjórnvöld væru einvörðungu að aðstoða eigin ríkisborgara yfir landamærin ásamt fólki af palestínsku bergi brotið sem hafði áður fengið dvalarleyfi í löndunum, en síðar farið aftur til Gasa og fest þar inni eftir 7. október.