Um 100 manns standa nú fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu og mótmæla því að stjórnvöld vinni ekki með virkum hætti að því að sameina fjölskyldur frá Gasasvæðinu hér á landi.
Mótmælendur kyrja hendinguna: „Börnin á Gasa eru okkar börn,“ í aðdraganda reglubundins ríkisstjórnarfundar sem senn hefst í bústaðnum. Um það bil tugur lögreglumanna stóð vörð og gekk úr skugga um að allt færi friðsamlega fram.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gekk út fyrir dyr Ráðherrabústaðarins, heilsaði fólkinu og bauð tveimur fulltrúum mótmælenda inn fyrir dyrnar í spjall, Hjálmtý Heiðdal, formanni félagsins Ísland-Palestína og Naji Assar, sem flúði frá Palestínu fyrir 5 árum. Hann hefur gist í tjaldi á Austurvelli í 14 daga og er í forsvari fyrir þann hóp Palestínu fólks.