Hætta á kvikuhlaupi eða eldgosi næstu daga

Unnið að gerð varnargarða fyrir utan Grindavík.
Unnið að gerð varnargarða fyrir utan Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkanreikningar Veðurstofunnar benda nú til þess að rúmmál þeirrar kviku sem hefur safnast í lárétta kvikuinnskotið undir Svartsengi, frá 18. desember, sé orðið svipað því magni sem hljóp þaðan og myndaði kvikuganginn sem leiddi til eldgossins þann dag.

Frá þessu greinir Veðurstofan á vef sínum og varar af þessum sökum við aukinni hættu á kvikuhlaupi næstu daga. Slíkt hlaup getur endað með eldgosi, eins og gerðist síðast.

Líkanreikningarnir eru byggðir á gögnum úr GPS-mælingum og gervihnattamyndum.

Tekið er fram að jarðskjálftavirkni sé svipuð og hafi verið undanfarna daga.

Enn mælist frekar lítil skjálftavirkni en hún er að mestu bundin við svæðið á milli Hagafells og Stóra-Skógfells þar sem miðja kvikugangsins er staðsett.

Landrisið 5 sentimetrum meira en fyrir fyrri atburði

Áfram er einnig nokkur skjálftavirkni í Fagradalsfjalli og er hún sögð hafa verið viðvarandi frá 18. desember.

Landris mælist enn við Svartsengi og hefur haldist nokkuð stöðugt frá því gos braust út.

Land hefur risið um u.þ.b. 5 mm á dag undanfarið og er hæð landsins nú um fimm sentimetrum meiri en mældist fyrir kvikuhlaupin 10. nóvember og 18. desember síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert