Hætta dreifingu bréfpoka í verslanir

Bréfpokar frá Sorpu verða ekki lengur í boði í verslunum.
Bréfpokar frá Sorpu verða ekki lengur í boði í verslunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sorpa mun hætta að dreifa bréfpokum í verslanir frá og með 10. janúar, þar sem íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa sótt á þriðja tug milljóna poka. Sorpa sendi út tilkynningu þess efnis síðdegis í dag.

Könnun Gallup sýndi í desember að hátt í helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins hafi hamstrað bréfpokana.

Allur gangur er á því hvort borgarbúar notfæri sér bréfpoka Sorpu og flokki lífrænt sorp og bendir Sorpa á að algengt að matarleifar séu skildar eftir í tunnu fyrir blandað rusl.

Þó er tekið fram að árangur samræmdrar flokkunar sé mikill og að hreinleiki matarleifanna sem íbúar skili sé um 98%. 

Mikið af matarleifum ratar í blandaða sorpið.
Mikið af matarleifum ratar í blandaða sorpið. Ljósmynd/Sorpa

Munu geta sótt poka á endurvinnslustöðvum

„Ljóst er að dreifingin hafi gengið vel og íbúar höfuðborgarsvæðisins sótt um 24 milljónir poka frá því verkefnið hófst. Það magn af bréfpokum ætti að duga heimilunum í eitt og hálft ár,“ segir í tilkynningu. 

Áfram munu íbúar þó geta sótt bréfpoka endurgjaldslaust á endurvinnslustöðvar Sorpu og í verslun Góða hirðisins. Samhliða því verður gjaldfrjálsri dreifingu bréfpoka í verslunum hætt.

Sérsöfnun á matarleifum hófst á síðasta ári á suðvesturhorni Íslands sem liður í aukinni flokkun við heimili. Bréfpokum undir matarleifar var dreift frítt til íbúa samhliða nýju kerfi og í helstu matvöruverslunum á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert