Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er enn þeirrar skoðunar að hún telji ekki tilefni til þess Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segi af sér.
Spjótin hafa beinst að Svandísi eftir álit umboðsmanns Alþingis fyrir helgina um vinnubrögð hennar þegar hún setti á tímabundið hvalveiðibann síðasta sumar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, greindi frá því í samtali við Morgunblaðið í dag að Miðflokkurinn boði framlagningu á vantrauststillögu á Svandísi og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist vera með vantrauststillögu í mótun.
Katrín sagði í samtali við mbl.is um nýliðna helgi að hún teldi ekki tilefni til afsagnar Svandísar. Spurð eftir ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum í dag hvort hún sé enn þeirrar skoðunar sagði hún:
„Ég sagði i samtali við ykkur um helgina að ég telji þetta álit umboðsmanns Alþings ekki tilefni til afsagar ráðherra og afstaða mín til málsins hefur ekkert breyst.“
Hver er staða Svandísar og kemur til greina að hún skipti um ráðuneyti?
„Það hefur komið fram í hennar máli að ráðuneyti hennar er að greina þennan úrskurð sem kom fram á föstudaginn og er að vega og meta næstu skref. Við bíðum bara eftir því,“ segir Katrín.
Nú er ljóst að það verður lögð fram vantrauststillaga á matvælaráðherra. Hverju breytir það?
„Við höfum fengið fram vantrauststillögur á nokkra ráðherra í minni tíð og varið þá ráðherra vantrausti hingað til,“ svarar Katrín.
Hún segir að það hafi komið fram hjá þingmönnum allra stjórnarflokkanna að stjórnin sé að fást við mjög stór viðfangsefni í augnablikinu og nefnir í því samhengi stöðu efnahagsmála og kjarasamninga.
„Okkur hefur hingað til lánast að vinna úr verkefnunum þrátt fyrir ýmsa storma og ég stend hér keik,“ segir Katrín.
Spurð hvort allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu sammála um að Svandís haldi embætti sínu segir Katrín: „Við höfum ekki rætt það á vettvangi ríkisstjórnarinnar en ég er auðvitað í nánu samtali við formenn flokkanna.“