Jólatengd manndráp ekki út í hött

Dr. Helgi Gunnlaugsson telur tengingu við jólahátíðina ekki út í …
Dr. Helgi Gunnlaugsson telur tengingu við jólahátíðina ekki út í bláinn hvað snertir manndrápsbylgju í Noregi í byrjun árs. Árni Sæberg

Noregur er með eina lægstu manndrápstíðni í Evrópu og hún er einnig lág í samanburði við Norðurlöndin, Ísland er á svipuðum slóðum og Noregur, reyndar aðeins lægri tíðni hjá okkur.“

Þetta segir dr. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræðum við Háskóla Íslands og eitt helsta átorítet landsins á þeim vettvangi, inntur álits á vangaveltum norskra fræðimanna um hverju fimm manndrápsmál í Noregi fyrstu viku ársins sæti. Hann segir alltaf við sveiflum að búast þegar um fá manndráp er að ræða yfir árið, „einkum hjá okkur en ekki síður Norðmönnum sem bæði eru með fá manndráp á hverju ári og mannfjöldi tiltölulega lítill í alþjóðasamhengi“, segir prófessorinn.

Hann segir manndrápin í þeim löndum sem hér eru til umræðu yfirleitt ekki skipulögð, þau gerist oftast í hita leiksins og séu oftar en ekki vímukennd og gegn ástvinum, nánustu aðstandendum eða fyrrverandi mökum þar sem um einhvers konar uppgjör sé að ræða. Í Noregi fylgi gjarnan sjálfsvíg í einhverjum tilfellum.

Tilfellin fá og tíminn stuttur

„Þessi mál sem orðið hafa undanfarið eru mjög í þessum anda, engar eðlisbreytingar að eiga sér stað. Samdráttur í geðhjálp í Noregi og hærri tíðni manndrápa undanfarið má vera skýring en það þarf lengra tímabil til að álykta sem svo, tilfellin eru þrátt fyrir allt of fá og tíminn of stuttur, það eru alltaf tilviljanir í málum af þessu tagi,“ segir Helgi og kveður kenningu Svein Øverland, forstöðumanns Landssamtaka fræðimanna um réttargeðlæknisfræði í Noregi, um manndráp tengd jólahátíðinni ekki fjarri lagi.

„Tengingin við jól og áramót er ekki út í bláinn, þar eru hefðirnar áberandi og fjölskylduhittingar sem opna á sársauka og rof fjölskyldna, sem í einstaka tilfellum geta endað í fjölskylduharmleik. Samanlagt eru fá tilfelli að jafnaði á ári hverju í Noregi og alltaf má búast við sveiflum. Á Íslandi höfum við haft ár með fimm til sex manndrápum en svo ár þar sem ekkert manndráp er, meira að segja nokkur ár á þessari öld,“ segir Helgi af tengingunni við hátíð ljóss og friðar.

Noregur í flokk þjóða með háa drápstíðni?

Hann segir Noreg einnig ganga í gegnum sínar sveiflur í manndrápstölfræði, nú hafi verið þar há sveifla sem vonandi hjaðni, það hafi alltaf gerst fram til þessa og sú verði væntanlega einnig raunin nú.

„Ef þróunin heldur aftur á móti svona áfram er Noregur kominn í flokk með þjóðum með háa manndrápstíðni og ég hef ekki trú á því, engar eðlisbreytingar á þessum manndrápum styðja það mat,“ segir dr. Helgi Gunnlaugsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert