Mikilvægt að framlag ríkisins gagnist öllum

Katrín og Þórdís Kolbrún ræddu við mbl.is um kjaramálin.
Katrín og Þórdís Kolbrún ræddu við mbl.is um kjaramálin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hitti forystufólk innan raða BSRB, BHM og KÍ í gær þar sem hún fór yfir væntingar til komandi kjarasamninga á opinberum markaði.

Fundurinn var í kjölfar fundar sem hún og fjórir úr ráðaherraliði hennar áttu með breiðfylkingu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði á föstudaginn þar sem breiðfylkingin kynnti stjórnvöldum kröfur sínar og kallaði eftir aðkomu ríkisins í gerð langtíma kjarasamninga.

„Aðalefni mitt á þessum fundi í gær var að fara yfir hvernig atbeini ríkisins í þessum málum og sýn þeirra er á hann. Að mínu viti er mjög mikilvægt að framlag ríkisins til að greiða fyrir kjarasamningi á almennum markaði gagnist öllum vinnumarkaðnum og ekki síst þegar við erum að hugsa í anda þjóðarsáttar,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Opin lína á milli okkar

Katrín segir það liggja fyrir og hafa komið fram að allir hafi rétt til að semja á sínum forsendum og félögin séu ekki öll með sömu hugmyndir um launakröfur.

„Það sem ég held að það sé mikilvægt sé að greiða fyrir samtali um þau mál þótt ríkið sé ekki aðili að þeim samtölum á almennum vinnumarkaði. Það sem skiptir máli er að samninganefnd ríkisins heyri í þessum félögum núna til að fá að vita þeirra kröfur og ég hef væntingar til þess að það gerist í vikunni,“ segir Katrín.

Hún segir að ríkisstjórnin ætli að gefa sér þessa viku til að greina tillögur breiðfylkingarinnar.

„Við erum alltaf í sambandi og það er opin lína á milli okkar,“ sagði Katrín með bros á vör.

Miklar aðgerðir sem er verið að krefja okkur um að fara í

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, tók þátt í umræddum fundi við breiðfylkingu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði á föstudaginn. Spurð hvort ríkið sé tilbúið að ganga að kröfum breiðfylkingarinnar sem gætu kostað ríkið 20-25 milljarða króna segir hún:

„Þetta eru miklar aðgerðir sem er verið að krefja okkur um að fara í og þetta eru fjármunir sem ekki er gert ráð fyrir, hvorki í fjárlögum þessa árs né fjármálaáætlun. Það þýðir auðvitað ef við erum öll staðföst í að gera það sem er ábyrgt og skynsamlegt með þessi markmið í huga þá þurfa ríkisfjármálin að styðja við það. Það gerist ekki bara sjálfkrafa að við bætum gríðarlegum fjármunum til viðbótar á hverju ári,“ segir Þórdís Kolbrún við mbl.is.

Þórdís segir mikilvægt að huga að því hvers virði langtímasamningar eru fyrir allt samfélagið og hvaða áhrif það mun hafa á verðbólguvæntingar, stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.

„Ég get ekki, í mínu embætti með mína ábyrgð og skyldu, tekið ákvarðanir um hluti nema það algjörlega skrifað út og klárað, það er að segja hvaða áhrif og afleiðingar það hefur. Við erum með útgjöld á hverju ári sem er ærið tilefni til þess að fara yfir og það er hægt að huga að mótvægisaðgerðum ef þetta kallar á breytta forgangsröðun. Við þurfum að huga að því hvar við getum farið betur með almannafé. Það er hægt að hagræða og fara betur með fé.“

Þórdís segir stjórnvöld séu í samtali við vinnumarkaðinn og að fundir séu í gangi. Hún segir verkefnið stórt þar sem mörg púsl þurfi að raðast saman og hún segir að það skorti ekki viljann hjá stjórnvöldum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert