Ráða ekki við eigið kerfi

Ástandið er ekki glæsilegt í ruslageymslu hússins eins og glöggt …
Ástandið er ekki glæsilegt í ruslageymslu hússins eins og glöggt má sjá á myndinni sem ljósmyndari blaðsins tók um liðna helgi. mbl.is/Árni Sæberg

Einn eigenda fjölbýlishúss í Brautarholti í Reykjavík furðar sig á því að þjónustuaðilar hjá Reykjavíkurborg neiti að fjarlægja sorptunnur þegar þeir séu sjálfir á eftir áætlun og í staðinn sé boðið að borga aukalega fyrir að sorpið sé hirt.

Þorgeir Jóhannsson tjáði Morgunblaðinu í gær að sorp hefði ekki verið tæmt í fjölbýlishúsinu fyrir jól eins og til stóð. Þeir sem ættu að tæma sorpið hefðu ekki skilað sér fyrr en eftir áramót. Þá var ástandið orðið skrautlegt eins og meðfylgjandi myndir sýna.

„Þeir slepptu því alveg að taka ruslið“

Fóru þjónustuaðilarnir án þess að hirða sorp nema að litlu leyti og skildu eftir miða þar sem fram kom að bláar tunnur hefðu ekki verið tæmdar þar sem þær væru yfirfullar.

„Þeir áttu að koma fyrir jól en komu ekki fyrr en eftir áramót. Þá voru tunnurnar orðnar yfirfullar enda langur tími liðinn frá því að ruslið var síðast sótt. Þeir slepptu því alveg að taka ruslið sem fylgir bláu tunnunum,“ segir Þorgeir og hann veltir fyrir sér af hverju þeir taka ekki tunnurnar og tæma við þessar aðstæður en skilja íbúana eftir með það rusl sem er um fram. Ekki náðist í umsjónarmann hjá Reykjavíkurborg við vinnslu fréttarinnar.

Ruslið lá á víð og dreif þegar ljósmyndara bar að …
Ruslið lá á víð og dreif þegar ljósmyndara bar að garði. mbl.is/Árni Sæberg

Bauð losun gegn aukagjaldi

Á vef borgarinnar kemur fram að bláu tunnurnar séu tæmdar á 21 dags fresti. Þann 5. janúar sendi borgin frá sér tilkynningu þess efnis að ekki hefði tekist að hirða pappír og plast nægilega hratt í nokkrum hverfum borgarinnar. Mikill úrgangur hefði verið eftir hátíðirnar og færð erfið. Losun á gráum/brúnum tunnum væri hins vegar á áætlun.

Þorgeir segir viðbrögðin í þjónustuveri borgarinnar vera á þá leið að bjóða upp á losun gegn aukagjaldi.

„Þar var okkur boðið að kaupa hjá þeim aukalosun. Vegna þess að þeir koma ekki á réttum tíma, heldur tveimur vikum of seint, þá á kostnaður að falla á okkur! Borgin getur ekki staðið við losun á réttum tíma og þá er það okkar vandamál sem við eigum að borga aukalega fyrir.“

Lesa má meira um málið í Morg­un­blaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert