Rafmagni hnuplað úr viðburðaskáp borgarinnar

Íslenskir aðgerðasinnar hafa lagt Palestínumönnum á Austurvelli lið og tjaldað …
Íslenskir aðgerðasinnar hafa lagt Palestínumönnum á Austurvelli lið og tjaldað með þeim, hér má sjá tjald á vegum samtakanna No Borders Iceland en No Borders er alþjóðlegt net sjálfstæðra samtaka sem berjast gegn brottvísun flóttamanna eftir því sem fram kemur á Facebook-síðu No Borders Iceland. mbl.is/Óttar

„Ég frétti nú bara af þessu núna í dag, þá kom inn umsókn um afnot af þessum skáp en við fréttum líka í dag að þegar hefði verið tengt í skápinn,“ segir Björgvin Sigurðarson við mbl.is, deildarstjóri afnota og eftirlits hjá Reykjavíkurborg.

Á Björgvin þar við svokallaðan viðburðaskáp á vegum borgarinnar, rafmagnskassa sem stendur við Austurvöll og aðstandendur og skipuleggjendur ýmissa viðburða, mótmæla sem annarra, geta sótt um til borgarinnar að fá að nýta til rafmagnsaðfanga fyrir hátalarakerfi og annan rafknúinn búnað.

Umsóknin óafgreidd

Barst umsóknin frá aðstandendum mótmæla sem beinast gegn aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í tengslum við fjölskyldusameiningar Palestínumanna sem eiga um sárt að binda og eru á flótta undan linnulausum árásum Ísraelshers sem staðið hafa síðan í október og kostað tæplega 23.000 Palestínumenn lífið eftir því sem palestínska heilbrigðisráðuneytið greindi nýlega frá en það lýtur stjórn Hamas-hryðjuverkasamtakanna.

„Þessi umsókn er óafgreidd og verður skoðuð á morgun og afgreidd í samræmi við venjulega verkferla,“ segir Björgvin en vill ekki segja neitt um hve lengi rafmagn úr skápnum hefur verið nýtt að stjórnendum Reykjavíkurborgar fornspurðum.

Morgunblaðið greindi frá því í gær, mánudag, að Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, hygðist skoða það mál nánar að tjaldbúðir mótmælenda á Austurvelli væru andstæðar lögreglusamþykkt Reykjavíkur auk þess sem hann kvaðst ætla að skoða tildrög þess að óvarinn orkukapall lægi úr tengikassa Orkuveitunnar á Austurvelli – sem er téður viðburðaskápur borgarinnar – inn í tjaldbúðirnar.

„Ég þori ekki að fara með það hvort einhverjir aðrir hjá borginni hafi vitað af þessu fyrr en deildin hjá mér fær inn þessa umsókn um að tengjast inn á kassann og þá fáum við um leið þær upplýsingar að búið sé að tengja inn á kassann þá þegar,“ segir deildarstjórinn.

Nægi að viðburðir uppfylli skilyrði

Aðspurður kveður Björgvin ferlið almennt vera þannig að fólk sæki um að fá að nota viðburðaskápinn og hafi þær umsóknir verið afgreiddar í samræmi við verkferla um afgreiðslu umsókna, „þær fara bara í rýni þar sem metið er hvort um viðburð sé að ræða sem hljóti samþykki og þá fær viðkomandi aðgang að kassanum með lykli“, útskýrir hann.

Skilst honum að ekki sé rukkað sérstaklega fyrir rafmagnið, þar nægi að viðburðir uppfylli þau skilyrði sem sett séu fyrir aðgang að viðburðaskápnum og þar með rafmagni borgarinnar. „Öllum er frjálst að mótmæla þannig að ég myndi halda að í slíkum tilfellum fengju menn aðgang að skápnum,“ segir Björgvin Sigurðarson, deildarstjóri afnota og eftirlits hjá Reykjavíkurborg, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert