Ríkisstjórnarsamstarfið sé að verða algjör farsi

Þorgerður Katrín segir boltann vera hjá ríkisstjórninni.
Þorgerður Katrín segir boltann vera hjá ríkisstjórninni. mbl.is/Samsett mynd/Arnþór

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að boltinn sé hjá ríkisstjórninni hvað varðar hvernig tekið verði á áliti umboðsmanns Alþingis er varðar Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra.

„Matvælaráðherra er búinn að segjast taka þessu alvarlega, áliti umboðsmanns Alþingis, sem var mjög afgerandi – mjög skýrt álit. Það er alveg ljóst að þau þurfa að eiga frekari samtöl, þessir flokkar, aðallega Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkur,“ segir Þorgerður.

Þingflokkur Viðreisnar fundaði í dag þar sem meðal annars var rætt álit umboðsmanns Alþingis, sem segir að ekki hafi verið skýr stoð í lögum fyrir hvalveiðibanni Svandísar né hafi hún gætt meðalhófs.

Tekur ekki afstöðu til vantrausts að svo stöddu

Spurð að því hvort að Viðreisn muni styðja hugsanlega vantrauststillögu gegn Svandísi tekur hún ekki afstöðu til þess að svo stöddu. Hún segir að þetta sé ríkisstjórnarinnar að útkljá á meðan þing er ekki að störfum.

„Það er talað um að vika sé langur tími í pólitík, hvað þá tvær vikur fram að þingi, og ég ætla bara að láta þennan bolta vera hjá ríkisstjórninni,“ segir hún og bætir við:

„Þetta er að verða algjör farsi þetta ríkisstjórnarsamstarf og þetta er bara ein birtingarmyndin af því sem blasir við þjóðinni núna eiginlega á hverjum einasta degi og hverri einustu viku. Þessu verður að fara linna. Það verður að fara stýra landinu en ekki alltaf vera í þessum hringlandahætti eins og ríkisstjórnin er að bjóða upp á.“

Heyrist ekkert í forystu Sjálfstæðisflokksins

Þorgerður segir að Viðreisn meti það sem svo að boltinn sé hjá ríkisstjórninni og að Viðreisn muni ekki skerast í leikinn fyrr en þing kemur saman.

„Það eru tvær vikur þangað til að þing kemur saman og boltinn er hjá ríkisstjórninni. Á meðan þau eru ekki búin að tala skýrt um það hver hennar viðbrögð eru að þá tel ég ekki ástæðu enn þá fyrir okkur í Viðreisn að stíga þarna inn fyrr en þing kemur saman. En við verðum að sjá hvað flokkarnir gera.“

Hún segir að ekkert hafi heyrst í Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, né Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, og að það þyrfti að fá á hreint hvað þau segja og hvernig þau í ríkisstjórninni ætli að taka á málinu.

Þorgerður segir að þegar að þing komi saman muni ekki standa á Viðreisn að taka á þessu máli.

„Það sorglega við þetta allt er að það bíður allt á meðan. Það er eins og þau geti ekki afgreitt mörg mál í einu. Bæði það hvernig ráðherra axlar ábyrgð, klára efnahagsmálin, kjaramálin og heilbrigðismálin. Ríkisstjórnin verður að fara standa undir nafni og þeirri ábyrgð sem því fylgir að vera í ríkisstjórn,“ segir Þorgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert