„Þessi þróun hefur verið undanfarin 3-4 ár,“ segir Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, um stöðuga fækkun í fálkastofninum.
Hann bætir við að vel þurfi að fylgjast með gangi mála því stofninn hafi mælst talsvert minni árið 2023 en gert hafði verið ráð fyrir.
Rannsóknir hafa verið stundaðar á stofnstærð fálka á Norðausturlandi síðan 1981, en um 10-15% af heildarstofni fálka á Íslandi verpa á þessu svæði segir Ólafur. Fálkar helga sér óðul og eru þar allt sitt líf og óðalið gengur til næstu kynslóðar fugla og eru mörg talin hafa verið notuð frá upphafi fálkabyggðar. Í sumar voru öll óðulin heimsótt til að telja hversu mörg voru í ábúð og í ljós kom að 41% þeirra var virkt. Fækkun í varpstofninum gæti endurspeglað mikil afföll geldfugla, sem hefði áhrif á nýliðun, en einnig afföll óðalsfálka.
Rjúpan er helsta fæða fálka og Ólafur segir að oft sé tenging á milli stofnstærðar þessara tegunda í eðlilegu árferði. „Miðað við rjúpnafjöldann og hvernig þessir tveir stofnar, rjúpnastofninn og fálkastofninn, hafa hagað sér áður og eins hversu góð viðkoman var hjá fálkanum fyrir nokkrum árum, 2018 og 2019, hefði maður búist við stærri stofnstærð.“ Ólafur segir að þótt ekki sé mikið af rjúpu þá sé það engin ördeyða miðað við það sem oft hafi verið áður.
„Varpið gekk mjög vel þessi ár svo maður hefði búist við að nýliðun hefði aukist núna. En ungar sem voru að klekjast úr eggjum 2018 og 2019 virðast ekki vera að skila sér,“ segir Ólafur og bætir við að fálkastofninn sé ekki stór fyrir.
„Þetta eru í besta falli 3-400 varppör og svo kannski einhver hundruð ókynþroska fugla. Á bestu árunum værum við að tala um í kringum 2.000 einstaklinga, en talan er komin neðar núna en við höfum séð áður,“ segir hann. „Á þessu svæði hafa verið 70 pör og núna í ár voru þau komin niður í 40, sem er mikið fall.“
Ólafur telur að líklegasta skýringin á því að nýliðun er ekki að skila sér sé fuglaflensa. „Fuglaflensa herjar helst á sjófugla hér við land, m.a. súluna, sem er frekar óvenjulegt æti fyrir fálka. En fálkar leggjast á hræ og ef þeir finna dauða eða deyjandi fugla þá éta þeir þá, þótt þeir yfirleitt snerti ekki súluna.“ Hann bætir við að fyrir rúmu ári hafi fálki sést leggjast á súlu, sem líklega hafi verið flensudauður fugl, og eins hafi MAST staðfest fuglaflensu í einum fugli árið 2022.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.