Stórt lárétt kvikuinnskot, um 50 til 100 ferkílómetrar að stærð, gæti hafa myndast undir Krýsuvíkursvæðinu. Ef sú er raunin þá eru ef til vill mestar líkur á gosi þar.
Þetta segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur.
Fjallar Haraldur um málið á bloggsíðu sinni í gærkvöldi en þar rýnir hann í kort sem Einar Hjörleifsson hefur teiknað upp, en hann er fiskifræðingur og fyrrum doktorsnemi í gamla skóla eldfjallafræðingsins, Graduate School of Oceanography í Rhode Island-háskóla.
Einar hefur kannað dýpi á upptökum jarðskjálfta á vestanverðum Reykjanesskaga fyrir desember 2023 og sett það fram á landakorti til að kanna dreifingu og dýpi saman.
„Í staðinn fyrir eina vídd í fyrra bloggi mínu á Gamlársdag, þá erum við nú komnir með þriðju víddina á dreifingu jarðskjálfta í skorpunni á þessu svæði. Kortið sem Einar bjó til er frábært en kemur manni reyndar töluvert á óvart, satt að segja. En það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt um jörðina,“ bloggar Haraldur.
Segir Haraldur að austast á korti Einars sé svæðið umhverfis Krísuvík.
„Það sýnir dreif af grunnum skjálftum og nokkrum dýpri, en engan greinilegan strúktúr eða sprungustefnur. Maður gæti haldið að það sé merki um lárétt kvikuinnskot. Ef svo er, þá er hér stórt lárétt innskot af kviku, sem getur verið 50 til 100 ferkílómetrar. Ef til vill eru líkurnar á gosi mestar hér.“
Segir Haraldur einnig frá myndriti sem Einar gerði, svo kölluðu histógrami sem sýni dreifingu á dýpi allra skjálfta í desember 2023 á svæðunum undir Fagradalsfjalli, Sundhnúkagígaröðinni og við Krísuvík.
Þá komi í ljós að dýpri skjálftar (á 6 km dýpi eða meira) verði fram fyrst og fremst undir svæðinu umhverfis Fagradalsfjall, en lítið eða ekki undir hinum svæðunum tveimur, Krýsuvík og Sundahnúkagígaröðinni.
„Þetta kom mér á óvart í fyrstu, en það er reyndar alveg lógískt, ef við gerum ráð fyrir því að leifar af láréttu kvikuinnskoti séu enn fyrir hendi á meira en 6 km dýpi undir Sundahnúksgígaröðinni og Krísuvík, en slíkt kvikuinnskot mun hindra bylgjum frá dýpri skjálftum að komast upp á yfirborð. Hins vegar virðist kvikuinnskotið vera horfið undir svæðinu umhverfis Fagradalsfjall, og dýpri skjálftar ná því yfirborði þar.“