Askur Hrafn Hannesson, aðgerðasinni og einn þeirra sem stendur að skipulagningu mótmæla Palestínumanna sem tjalda á Austurvelli, segir starfsmann frá Reykjavíkurborg hafa aðstoðað mótmælendur við að tengja rafmagnskapal í viðburðaskáp í upphafi mótmælanna.
Því hafi mótmælendurnir talið sig hafa fengið rafmagn með leyfi frá borginni. Mótmælendur hringdu á skrifstofu Reykjavíkurborgar og var tjáð í því símtali að ekki yrðu gerðar athugasemdir við notkun rafmagnsins.
„Við héldum að það væri ekkert því til fyrirstöðu að við notuðum rafmagnið fyrst maður frá borginni kom og setti þetta upp fyrir okkur,“ segir Askur í samtali við mbl.is.
Telur hann málið því byggja á misskilningi milli mótmælenda og borgarinnar.
Í samtali við mbl.is staðfestir Askur að nú sé búið að sækja formlega um leyfi fyrir not á rafmagni á Austurvelli og að nú sé beðið eftir formlegu samþykki frá borgaryfirvöldum.
mbl.is greindi frá því fyrr í kvöld að mótmælendur hefðu haft afnot af viðburðaskápnum án leyfis undanfarið. Umsókn hefði þó borist í dag um afnot af þessum skáp að sögn Björgvins Sigurðarsonar, deildarstjóra afnota og eftirlits hjá Reykjavíkurborg.
Mótmælin beinast gegn aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í tengslum við fjölskyldusameiningar Palestínumanna sem eiga um sárt að binda og eru á flótta undan linnulausum árásum Ísraelshers sem staðið hafa síðan í október og kostað tæplega 23.000 Palestínumenn lífið eftir því sem palestínska heilbrigðisráðuneytið greindi nýlega frá en það lýtur stjórn Hamas-hryðjuverkasamtakanna.
Sagði Björgvin umsókn mótmælenda óafgreidda og að hún verði skoðuð á morgun og afgreidd í samræmi við hið venjulega kerfi.