Vantrauststillaga á matvælaráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, boðar vantrauststillögu á Svandísi Svavarsdóttur …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, boðar vantrauststillögu á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra um leið og Alþingi kemur saman á ný. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn

Miðflokkurinn boðar framlagningu vantrauststillögu á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra um leið og Alþingi kemur saman á ný 22. janúar nk. Þetta staðfestir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins í samtali við Morgunblaðið.

„Við höfum áður sagt að ef ríkisstjórnin leysir ekki úr þessu máli áður en Alþingi kemur saman þurfi þingið að grípa inn í. Nú virðist, samkvæmt athugunum okkar, sem meirihluti sé fyrir vantrauststillögu og í ljósi þess má gera ráð fyrir að við leggjum hana fram, verði málið ekki leyst í millitíðinni,“ segir Sigmundur Davíð.

Ríkisstjórnin gæti óvænt greitt úr málum

Spurður hvort aðrir þingflokkar stjórnarandstöðunnar séu sama sinnis segir Sigmundur Davíð að þeir verði að svara fyrir sig. „En við erum búnir að heyra hljóðið í þeim og það kæmi mér á óvart ef einhver úr stjórnarandstöðunni greiddi ekki atkvæði með vantrausti,“ segir hann og segist einnig telja að nægilega margir stjórnarþingmenn muni jafnframt styðja tillöguna.

Hann bendir á að eitt og annað gæti gerst þar til þing kemur saman, t.d. gæti ríkisstjórnin óvænt tekið upp á því að greiða úr sínum málum sjálf, eða að einhverjir stjórnarliðar sem nú væru tilbúnir til að styðja vantraust yrðu talaðir til. „En það verður að koma í ljós,“ segir hann.

Forsætisráðherra ekki enn svarað

Sigmundur Davíð bendir á að margt standi upp úr í þessu máli, t.a.m. hafi forsætisráðherrann ekki enn svarað því hvort það sé í lagi að ráðherra brjóti lög. Sömu spurningu þurfi hinir stjórnarflokkarnir að svara.

„Síðan eru það þessi ótrúlegu svör Svandísar að þetta væru bara gömul og úrelt lög og því þyrfti ekki að fara eftir þeim heldur þyrfti hún þvert á móti að starfa áfram til að geta breytt þeim. Þetta er ótrúleg yfirlýsing. Síðan er það jafnræðið, það er eins og aðrar reglur eigi að gilda um þá sem eru í réttu liði, það er Vinstri-grænum, en aðra eins og t.d. Sjálfstæðisflokkinn. Það kom mér á óvart að sjá að Bjarni Benediktsson skyldi víkja sem ráðherra án þess að hafa rætt við Vinstri-græna, að því er virðist, að hið sama myndi gilda um þá,“ segir Sigmundur Davíð.

Fyrir liggur að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra var ítrekað vöruð við að leggja í þá vegferð sem hún þó fór í, að banna hvalveiðar tímabundið sl. sumar. Hún tók ekkert tillit til þessarar ráðgjafar eigin sérfræðinga við ákvörðun sína um hvalveiðibannið.

Lesa má meira um málið í Morg­un­blaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert