Ákvörðun Sorpu kallar á sérstakar bílferðir

Sindri Freyr Ásgeirsson er formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl.
Sindri Freyr Ásgeirsson er formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl. Samsett mynd

Formaður samtaka um bíllausan lífstíl skorar á Sorpu að endurskoða ákvörðun sína um að hætta dreifingu á bréfpokum fyrir lífrænt sorp í verslanir. Hann segir lausnina ekki að skerða aðgengi fólks að pokunum, enda geti það orðið til þess að letja fólk við flokkun á lífrænu sorpi.

Sorpa tilkynnti um ákvörðun sína um að hætta að dreifa bréfpokum í verslanir frá og með deginum í dag, þar sem íbúar höfuðborgarsvæðisins hefðu sótt á þriðja tug milljóna poka.

Var ákvörðunin reist á niðurstöðu Gallup-könnunar um að hátt í helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins hefði hamstrað umrædda bréfpoka.

Hömstrun til marks um vaxtaverki 

„Ég held að þessi hömstrun séu einhverjir ákveðnir vaxtaverkir, þetta er ekki það gamalt. Þetta er tiltölulega nýtt, þannig að ég veit ekki, ég alla vega hefði haldið að hömstrun á þessum pokum myndi líða hjá með tímanum,“ segir Sindri Freyr Ásgeirsson, formaður samtaka um bíllausan lífsstíl, í samtali við mbl.is.

Sjálfur býr Sindri fjarri Sorpustöð og hefur ákvörðun Sorpu, um að íbúar sæki bréfpokana á end­ur­vinnslu­stöðvar Sorpu eða í versl­un Góða hirðis­ins, þau áhrif að hann þarf að gera sér sérstaka ferð í Sorpu.

„Það er ekki Sorpustöð neitt nálægt mér, þannig að þetta verður frekar flókið fyrir mig að fara. Ég þyrfti að gera mér sérstaka ferð fyrir þetta allavega. Kannski að leigja Hopp-bíl eða eitthvað álíka,“ segir hann.

Skorar á Sorpu að leita annarra leiða

Sindri skorar á Sorpu að leita annarra lausna við hömstrun íbúa á höfuðborgarsvæðinu á bréfpokum og spyr hvort stefnan sé ekki sú að sem flestir hafi gott aðgengi að pokunum til að sem flestir geti flokkað.

Spurður hvort hann sé með hugmyndir að betri lausn segir hann til að mynda hægt að dreifa pokunum í aðrar verslanir en matvöruverslanir, eða aðrar þær verslanir sem fólk sækir reglulega.

„Ég hef séð umræðu um að fólk sé að nýta sér pokana sem ávaxtapoka, því aðrir pokar í búðunum kosta, en þá væri allt eins hægt að dreifa þessu í aðrar verslanir. Raftækjaverslanir eða aðrar verslanir sem fólk sækir tiltölulega reglulega.“

Vill skila skilagjaldskyldum umbúðum í matvöruverslanir

Til viðbótar óskar Sindri eftir því að móttaka fyrir skilagjaldskyldar umbúðir, eða flöskur, verði endurskoðuð. Hann nefnir sem dæmi að í flestum Norðurlöndum skili íbúar skilagjaldskyldum flöskum í matvöruverslanir, eða sjálfsala sem staðsettir eru í matvöruverslunum.

Sindri telur að þetta yrði töluvert betri ráðstöfun, enda fer hann sjálfur aldrei með flöskur í Sorpu.

„Ég safna þessu og læt taka þetta frítt af því að það svarar ekki kostnaði fyrir mig að ætla að fara með þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert