Andlát: Guðrún Sigríður Jónsdóttir

Guðrún Jónsdóttir er látin.
Guðrún Jónsdóttir er látin.

Guðrún Sigríður Jónsdóttir félagsráðgjafi er látin 92 ára að aldri. Heimildin greinir frá andláti hennar. 

Guðrún lést í gær, þriðjudaginn 9. janúar, á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi. Eiginmaður Guðrúnar, Ólafur Thorlacius, lést árið 2019. Guðrún var fædd þann 16. júní 1931. Hún lætur eftir sig dóttur, Ragnheiði Thorlacius, fyrrverandi héraðsdómara.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Heimildarinnar, ritar um ævi Guðrúnar í grein á Heimildinni. Ingibjörg er einnig höfundur ævi- og baráttusögu Guðrúnar, Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg.

„Guðrún var ötul baráttukona fyrir réttindum kvenna og barna í íslensku samfélagi, en hún var í lykilhlutverki við stofnun Stígamóta árið 1990. Áður hafði hún komið að stofnun Kvennaráðgjafar, Kvennaathvarfs og Samtaka kvenna á vinnumarkaði, þar sem barist var gegn kynbundnum launamun og misrétti á vinnumarkaði. Hún var oddviti Kvennaframboðsins og sat í borgarstjórn á árunum 1982 til 1986. Hún kom einnig að stofnun Kvennalistans og seinna að stofnun Vinstri grænna,“ skrifar Ingibjörg.

Hún ritar einnig:

„Áður en Guðrún lét til sín taka í kvennabaráttunni var hún brautryðjandi í félagsráðgjöf hér á landi. Hún var fyrsti Íslendingurinn sem menntaði sig í faginu og byggði upp nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Sheffield árið 1991. Doktorsverkefnið gekk út á að ræða við brotaþola sifjaspella, en þar lýstu 27 íslenskar og breskar konur reynslu sinni af sifjaspelli og lýsingar þeirra voru ekki í neinum takti við fyrri lýsingar fræðimanna á sifjaspellum.

Árið 2007 fékk Guðrún riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumherjastörf í félagsráðgjöf og framlag til réttindabaráttu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert