Frestar frumvarpi um jöfnunarsjóð

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur ákveðið að fresta frumvarpi um …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur ákveðið að fresta frumvarpi um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra mun ekki beita sér fyrir því að frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði afgreitt frá Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ráðherra sendi bréf þess efnis til allra sveitarstjórna landsins í gærkvöldi.

Segist ráðherra m.a. hafa tekið ákvörðunina í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Reykjavíkurborgar gegn íslenska ríkinu en með dómnum er ríkinu gert að greiða Reykjavíkurborg 3,3 milljarða króna vegna vangoldinna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Í andstöðu við samkomulag frá 1996

Segir hann niðurstöðu dómsins fela í sér að Reykjavíkurborg fái úthlutað umtalsverðum fjármunum úr jöfnunarsjóði vegna reksturs grunnskóla fyrir árin 2015 til 2019 sem sé í andstöðu við samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá árinu 1996 um flutning verkefna grunnskólans. 

Tekur ráðherra fram að rétt sé að minna á að með samkomulaginu hafi öll sveitarfélög samþykkt hvernig fjármagni yrði skipt á milli sveitarfélaganna. 

Var samkomulagið unnið í góðri trú og með vitneskju allra aðila eins og fram kemur í dómnum að sögn Sigurðar Inga.

Samkomulagið ekki fært í lög með réttum hætti

Segir hann ljóst að dómurinn byggi fyrst og fremst á þeirri forsendu að samkomulagið hafi ekki verið fært í lög með réttum hætti á sínum tíma og muni því niðurstaðan, standi hún ábreytt, verða til þess að lækka þurfi framlög til allra sveitarfélaga næstu árin eins og var gert í kjölfar hæstaréttardóms nr. 34/2018. Megi ætla að með vöxtum og dráttarvöxtum nemi fjárhæðin allt að 5,5 ma. kr.

Óskar eftir að málinu verði áfrýjað

Segir hann niðurstöðuna valda sér miklu vonbrigðum og telur hann mikilvægt að sem fyrst verði aflétt óvissu um starfsemi Jöfnunarsjóðs og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. 

Auk þess séu miklir fjárhagslegir hagsmunir undir í málinu. Hann hafi því ákveðið, að höfðu samráði við ríkislögmann, að óska eftir því að málinu verði áfrýjað. 

Því verður beðið með heildarendurskoðun þar til óvissunni hefur verið eytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka