Í launalaust leyfi frá RÚV – Tjáir sig ekki frekar

Sigríður Dögg og Hjálmar á samsettri mynd.
Sigríður Dögg og Hjálmar á samsettri mynd. Samsett mynd

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, verður í launalausu leyfi frá störfum sínum á RÚV í kjölfar þess að framkvæmdastjóra félagsins, Hjálmari Jónssyni, var sagt upp störfum.

„Ég óskaði eftir því í gær að fara í launalaust leyfi af því að stjórnin sá fram á að það yrðu verkefni hérna sem þyrfti að sinna á skrifstofunni þegar Hjálmar væri hættur,” segir Sigríður Dögg.

Hún bætir við ekki sé ákveðið hversu lengi hún verður í leyfi og að samkomulag við fréttastjóra RÚV ráði því hvenær hún snýr aftur.

Formannskjör fer fram á aðalfundi BÍ fyrir lok fyrsta ársfjórðungs, eða fyrir lok apríl, og kveðst Sigríður Dögg ætla að sækjast eftir endurkjöri.

Vill ekki tjá sig

Spurð nánar út í brottrekstur Hjálmars og hvort hún vilji svara fyrir ummælin sem hann lét falla um formanninn, segist hún ekki vilja tjá sig frekar um málið og bendir þess í stað á tilkynningu sem var send út fyrr í dag.  

„Ég vísa í ákvörðun stjórnar sem var tekin einróma um trúnaðarbrest á milli framkvæmdastjóra og stjórnar sem ástæðu uppsagnar,” segir Sigríður Dögg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert