„Ég held að það sé þannig. Þegar menn gera mistök þá eiga þeir að bæta fyrir þau. Þá er lítið annað að gera en að stíga til hliðar,“ segir Ragnar B. Sæmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Akraness, í samtali við Morgunblaðið, spurður hvort hann teldi rétt að matvælaráðherra segði af sér embætti vegna lögbrota er hann lagði tímabundið bann við hvalveiðum sl. sumar.
Í áliti umboðsmanns Alþingis, sem kunngjört var sl. föstudag, kom fram að matvælaráðherra hefði brotið lög með setningu reglugerðar um tímabundið hvalveiðibann, auk þess sem hún hefði ekki gætt meðalhófs við setningu reglugerðar um bannið o.fl.
„Við lítum þetta mál mjög alvarlegum augum og það er afar mikilvægt að Vinstri-grænir skoði það sín megin hvað mögulegt er að gera í stöðunni til að við getum haldið áfram,“ segir Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Spurð hvort hún muni verja matvælaráðherra vantrausti, komi fram tillaga þar um á Alþingi, segir Ingibjörg að ekki sé komið að þeim tímapunkti enn.
„Vika er langur tími í pólitík og ég ætla að gefa Vinstri-grænum andrými til að meta stöðuna og koma með útspil til okkar. Við höfum kallað eftir því og Sjálfstæðisflokkurinn líka. Ég tel að Vinstri-grænir þurfi að axla ábyrgð og við höfum áhyggjur af þessu. Ráðherrann hefur sagst taka málið alvarlega og ég vil sjá með hvaða hætti hún ætlar að gera það. Það er samtal í gangi og mikilvægt, áður en nokkuð er sagt eða gert, að við höfum allar upplýsingar uppi á borðum varðandi málið. En ábyrgðin er hjá Vinstri-grænum,“ segir Ingibjörg.
„Pólitískar afleiðingar og pólitísk ábyrgð geta litið út með ýmsum hætti. Ég vil ekki úttala mig um það frekar, en finnst eðlilegt að Vinstri-grænir komi með það að borðinu sem þeir telja rétt til að bregðast við þessari stöðu,“ segir Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. „Þetta er á borði Vinstri-grænna og við skulum bíða og sjá og gefa þeim svigrúm. Ég trúi því ekki að Vinstrihreyfingin – grænt framboð, sem er ábyrgt stjórnmálaafl með góðu fólki, ætli sér að hafa viðbrögð helgarinnar sem lokapunkt í þessu máli.“
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, býst við að Hvalur hf. geri milljarða bótakröfu á ríkissjóð vegna hvalveiðibannsins, fyrir eigin hönd og starfsmanna sinna.