Maður sem grunaður er um að hafa átt þátt í andláti ungrar konu á Selfossi í apríl viðurkenndi að hafa spillt vettvangi, að sögn lögreglu. Niðurstöður krufningar benda til þess að dánarorsökin hafi verið kyrking og að kókaíneitrun verið meðvirkandi að dauðanum.
Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands frá því í ágúst. Þar segir að maðurinn hafi viðurkennt að hafa fært lík konunnar og þannig spillt vettvangi.
Einnig hafi hann komið undan gögnum og munum sem lögregla telur að hefðu haft sönnunargildi í málinu með því að hafa eytt stafrænum myndum, sagt upp áskriftum að gagnavörslusíðum og eytt forritum sem geymdu myndefni.
Landsréttur hefur nú birt flesta úrskurði sem kveðnir hafa verið upp í tengslum við andlát konunnar.
Í skýrslu lögreglu segir að þegar lögregluna bar að þann 27. apríl hafi maðurinn verið á staðnum með bróður sínum sem tilkynnti um andlát konunnar, að því er fram kemur í dómi Héraðsdóms Suðurlands þann 3. maí.
Við rannsókn á vettvangi og á líki konunnar vaknaði strax grunur lögreglu um að andlátið kynni að hafa borið að með saknæmum hætti að því er segir í úrskurðinum. Maðurinn var þá handtekinn í þágu rannsóknar málsins og úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 29. apríl.
Maðurinn var grunaður um að hafa svipt konuna lífi eða á annan hátt átt hlut að andláti hennar. Hann sætti gæsluvarðhaldi frá 29. apríl til 31. ágúst og síðan farbanni til 1. desember, að því er fram kemur í gögnum málsins.
Rannsóknarniðurstöður skýrslu útvíkkaðrar krufningar benda til þess að dánarorsökin hafi verið kyrking og að kókaíneitrun hafi hið minnsta verið meðvirkandi.
Í greinargerð lögreglu í úrskurði héraðsdóms þann 1. desember, þegar hann þurfti ekki lengur að sæta farbanni, segir að maðurinn hafi neitað sök og byggt framburð sinn á því að konan hafi látist af völdum ofskömmtunar fíkniefna.
Hann segðist þá hafa komið að konunni meðvitundarlausri á gólfi og líkami hennar hefði þá orðinn stífur um tveimur klukkustundum eftir að þau hættu að stunda kynlíf sem fól í sér endurtekin kyrkingartök af hálfu mannsins um háls hennar, sem stóð yfir allt frá kvöldinu áður og fram undir morgunn.
Hafi þau bæði verið undir áhrifum kókaíns.
Misræmi hefur verið í framburði mannsins og annarra vitna, að sögn lögreglu, og framburður mannsins breyst „í verulegum atriðum“.
Hafi hann fyrst sagst hafa vitað að konan væri á lífi þegar hann hefði yfirgefið húsið að morgni dags 27. apríl. Seinna hafi hann sagt að hann hefði síðast séð hana með meðvitund á milli 4 og 5 þann aðfaranótt þess dags.
Lögreglan segir að þegar maðurinn sá að konan væri látin hafi hann „afráðið að hyggilegra væri að koma undan fíkniefnum af heimilinu og ummerkjum eftir fíkniefnaneyslu, í stað þess að kalla til viðbragðsaðila á vettvang til þess að reyna að bjarga lífi hennar“.
Síðan hafi hann dvalið á heimili bróður síns þar til þeir keyrðu saman aftur á vettvang og, sem fyrr segir, tilkynnt andlát konunnar til lögreglu.
Búið er að senda málið til héraðssaksóknara sem mun taka ákvörðun um hvort maðurinn, sem er með réttarstöðu sakbornings verður ákærður eða ekki.
Í gæsluvarðhaldsúrskurði frá því í ágúst segir að maðurinn hafi ekki verið samvinnufús lögreglunni, sem segir hann hafa verið tregan til að veita rannsakendum aðgang að símagögnum.
Þá hafi lögreglan, í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, sent réttarbeiðnir til breskra og bandarískra yfirvalda og óskað eftir aðstoð við rannsókn málsins, endurheimt og öflun rafrænna gagna frá þarlendum fyrirtækjum. Sú gagnaöflun tók nokkurn tíma.
Einnig segir í ágústúrskurðinum að lögreglan hafi kannað af hverju 2.905.000 krónur hefðu runnið inn á bankareikning mannsins, frá reikningi konunnar á meðan aðeins 69 þúsund hefðu runnið inn á reikning hennar. Skýringar koma ekki fram í dómskjölum.