Viðbragðsaðilar gera sig klára

Frá aðgerðum í Grindavík nú síðdegis.
Frá aðgerðum í Grindavík nú síðdegis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verktakar hafa unnið á stórum vinnuvélum við að grafa í heimkeyrslu einbýlishúss þar sem viðbragðsaðilar hafa aðhafst í Grindavík í dag. 

Virðast björgunarsveitarmenn nú búa sig undir einhvers konar aðgerð.

Óttast er að maður sem var einn við vinnu við jarðvegsþjöppun eftir sprungufyllingu hafi fallið ofan í sprungu. Tilkynning um slysið barst klukkan 10.18 í morgun og hefur fjölmennt lið viðbragðsaðila leitað mannsins í allan dag.

Frá aðgerðum á vettvangi í Grindavík í dag.
Frá aðgerðum á vettvangi í Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hættulegur vettvangur

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri Suðurnesja, kveðst ekki geta gefið miklar upplýsingar um gang mála. Leitin standi enn yfir og að verið sé að tryggja aðgang björgunarmanna á svæðinu.

Vettvangurinn sé hættulegur.

Blaðamaður mbl.is segir mikið viðbragð á vettvangi.

Lögreglu-, slökkviliðs- og björgunarsveitarbílar eru á svæðinu, auk kranabíls og slökkviliðsbíls sem er í viðbragðsstöðu.

Veðuraðstæður að versna

Þá hefur grafa verið að störfum í heimkeyrslu hússins undanfarna klukkustund. Er jafnframt búið að koma fyrir ljósi við einbýlishúsið þar sem farið er að rökkva úti. Er jarðveginum skóflað upp á vörubíl sem flytur hann í burtu.

Úlfar vildi ekki tjá sig nánar um störf vinnuvélanna í heimkeyrslunni þegar eftir því var leitað. 

Veðuraðstæður eru að versna og er mikil rigning á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka