„Börnin munu nú njóta verndar í Noregi“

Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur, kveður skjólstæðing …
Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur, kveður skjólstæðing sinn gleðjast yfir niðurstöðu Héraðsdóms Telemark í Skien í dag. Samsett mynd

„Skjól­stæðing­ur minn gleðst yfir dóm­in­um sem er ná­kvæm­ur og bygg­ir á heild­ar­mynd sönn­un­ar­gagna máls­ins,“ seg­ir Sjak R. Haaheim, lögmaður barns­föður Eddu Bjark­ar Arn­ar­dótt­ur, en Edda hlaut í dag eins árs og átta mánaða fang­elsi fyr­ir Héraðsdómi Telemark í Skien í Nor­egi fyr­ir að nema syni sína á brott frá rétt­mæt­um for­sjáraðila þeirra, föðurn­um, og færa þá til Íslands þar sem dreng­irn­ir voru fald­ir um langa hríð.

„Skjól­stæðing­ur minn er þeirr­ar skoðunar að viss­ir ís­lensk­ir fjöl­miðlar ættu að líta sér nær fyr­ir ein­hliða um­fjöll­un um mál móður sem áður hef­ur hlotið dóm fyr­ir barns­rán – um­fjöll­un sem fyrst og fremst hef­ur komið niður á brott­numd­um börn­um og tafið fyr­ir að þeim verði komið í rétt­ar hend­ur eins og Haag-sátt­mál­inn frá 1980 ger­ir ráð fyr­ir,“ held­ur lögmaður­inn áfram.

Áhyggj­ur sem stungu í stúf

Kveður hann skjól­stæðing­inn enn frem­ur sátt­an við gagn­rýni Truls Eirik Waale héraðsdóm­ara í garð ís­lensks sál­fræðings sem bar vitni við rétt­ar­höld­in og ræddi við börn­in án samþykk­is og án þess að fag­leg­um bak­grunni væri til að dreifa, rétt eins og þar væri um að ræða pönt­un frá móður­inni og lög­manni henn­ar.

Stjórn­end­ur skóla drengj­anna þriggja á Íslandi hafi einnig látið áhyggj­ur sín­ar í ljós, „eitt­hvað sem sting­ur í stúf við þá glans­mynd sem dæmda reyndi að draga upp“, seg­ir Haaheim.

„Börn­in munu nú njóta vernd­ar í Nor­egi svo þeim verði ekki rænt þriðja sinni – hvorki fyr­ir at­beina dæmdu né aðstoðarfólks. Ég get ekki tjáð mig í smá­atriðum um þær ráðstaf­an­ir sem gripið verður til, en marg­ir munu koma að því að búa svo um hnút­ana að börn­in njóti ör­ygg­is og næðis í framtíðinni,“ seg­ir Haaheim að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert