Hjálmar Jónsson, sem var sagt upp sem framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands (BÍ) í gær, segir að það liggi fyrir í samtölum sínum við formann félagsins að hann hafi gerst sekur um að skjóta tekjum undan skatti í þrjú ár.
Hann segir að soðið hafi endanlega upp úr á milli hans og formannsins þegar hann hafi neitað formanninum um skoðunaraðgang að reikningum félagsins.
„Það hefði ekki komist upp nema vegna þess að skattyfirvöld kölluðu eftir upplýsingum frá Airbnb og fengu um síðir. Að telja ekki fram tekjur til skatts í eitt ár getur verið mistök, í tvö ár kannski heimska, en í þrjú ár samfleytt hlýtur að teljast einbeittur brotavilji. Í mínu ungdæmi hétu þetta skattsvik en á nýíslensku núverandi formanns heitir þetta endurálagning!” skrifar Hjálmar í aðsendri grein á Vísi og á þar við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann BÍ.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Hjálmar að honum hefði verið sagt upp eftir ágreining við Sigríði Dögg. Hann sagði hana ekki starfi sínu vaxinn. Hún væri ekki með hreinan skjöld í fjármálum og hefði ekki gefið skýringar í þeim efnum.
Í grein sinni á Vísi segir Hjálmar það hafa verið skylda sín sem framkvæmdastjóri BÍ að standa vörð um orðstír félagsins en því miður hafi hann verið heldur einmana undanfarið í því hlutverki. Aftur á móti hafi hann ítrekað beðið formanninn um að gera hreint fyrir sínum dyrum. Einnig hafi hann látið skoðun sína í ljós á meðan hann fékk að sækja stjórnarfundi félagsins. Skoðun hans hafi ekki komið aftan að neinum heldur hafi hún legið fyrir frá upphafi.
„Núverandi formaður BÍ er illa haldin af „íslensku veikinni“, sem ég kýs að kalla svo, og felst í því að setja sjálfum sér sérreglur og öllum öðrum aðrar reglur. Það er þjóðarósiður. Ég veit ekki hversu oft ég hef upplifað það á fjörutíu ára ferli sem blaðamaður, að brotamenn setji í herðarnar og segi manni að éta það sem úti frýs, reglurnar gildi um alla aðra en þá,” skrifar Hjálmar jafnframt.
Hann heldur áfram og segir formann Blaðamannafélags Íslands þurfa að hafa hreinan skjöld.
„Það sorglega er að núverandi formaður hefur tekið eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni félagsins. Það er til skammar fyrir núverandi formann og þá sem hafa lagt hönd á plóg,” skrifar hann.
„Þetta er ekki „frekjukallasyndróm“ eins og einhver gæti haldið. Því til sönnunar var ég búinn að starfa vandræðalaust með núverandi formann í rúm tvö ár áður en upplýsingar um skattaundaskot hennar komu fram.”
Jafnframt segir Hjálmar að soðið hafi endanlega upp úr á milli hans og Sigríðar Daggar í síðustu viku þegar hún vildi fá skoðunaraðgang að reikningum félagsins.
„Ég hafnaði því alfarið, enda fullkomlega óeðlilegt að mínu mati. Stjórn og formaður geta kallað eftir öllum upplýsingum úr bókhaldi félagsins, en viðkvæmar persónuupplýsingar um hverjir fá endurgreiddan sálfræðikostnað eða eru að glíma við krabbamein, svo dæmi séu tekin, koma þeim að sjálfsögðu ekki við.” Að veita öðrum aðild að slíkum upplýsingum væri lögbrot.
Loks þakkar segist Hjálmar hafa fundið mikinn stuðning frá félögum í BÍ undanfarinn sólarhring.
„Ég trúi því að stjórn félagsins standi til þess að gera ein í þessari ákvörðun sinni. Mér var boðinn starfslokasamningur sem ég að sjálfsögðu hafnaði. Maður samþykkir ekki svona vinnubrögð þó allur gjaldeyrisforði Seðlabankans sé í boði.”