Gæti gosið á næstu klukkustundum eða sólarhringum

Síðasta eldgos í Grímsvötnum hófst þegar vötnin voru að tæmast.
Síðasta eldgos í Grímsvötnum hófst þegar vötnin voru að tæmast. mbl.is/RAX

Ef þrýstingsbreytingin sem kemur í kjölfar jökulhlaups úr Grímsvötnum kemur af stað eldgosi, er líklegt að það gerist á næstu klukkustundum eða sólarhringum, að mati Benedikts Gunnars Ófeigssonar, jarðeðlisfræðings og fagstjóra aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.

Jökulhlaup er hafið úr Grímsvötnum og eru auknar líkur á eldgosi. Laust fyrir klukkan sjö í morgun mældist skjálfti af stærðinni 4,3 í Grímsvötnum sem er sá stærsti frá upphafi mælinga.

Síðustu daga hefur vaxandi hlaupórói mælst á Grímsfjalli og hefur vatnsmagn í Gígjukvísl farið vaxandi.

Þrýstingsbreyting greinilega sett eitthvað af stað

„Það getur komið gos í kjölfarið,“ segir Benedikt Gunnar í samtali við mbl.is.

Hann segir greinilegt að þrýstingsbreytingin hafi komið einhverju af stað, eftir að jökulhlaupið hófst og vísar til jarðskjálftanna í Grímsvötnum í morgun.

„Það er greinilegt að þetta hefur valdið einhverjum titringi í eldstöðinni. Svo er bara spurning hvort það sé nóg til að koma af stað gosi.“

Eldgosið hófst þegar vötnin tæmdust

Hann rifjar upp að þegar síðast gaus í Grímsvötnum árið 2011 hafi eldsumbrotin hafist um það leyti sem vötnin tæmdust.

„Það er akkúrat þegar þrýstingsléttingin er mest. Þá er minnsta vatnsmagnið eftir en hæðarbreytingin er svo mikil síðast í hlaupinu og það er það sem veldur mestu þrýstingsbreytingunnni,“ segir Benedikt Gunnar og ítrekar að það sé hæðarbreytingin á vatninu sem stýri breytingunni á þrýstingnum, ekki vatnsrúmmálið.

„Þannig að það er þegar hlaupið er að klárast sem mesta álagið er. Þá getum við búist við að það triggerist eldgos,“ segir Benedikt og heldur áfram:

„Það er þá bara að fara að gerast á næstu klukkustundum eða kannski sólarhringum – ef það fer að gjósa þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka