„Það er aðeins varasamt að horfa á sveiflur frá degi til dags,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, spurður út í þær vísbendingar sem fram hafa komið um að land sé tekið að síga lítillega við Svartsengi.
Að sögn Benedikts er ákjósanlegast að horfa til meðalhraða landriss yfir nokkra daga. Margar breytur geti haft áhrif á litlar breytingar í mælingum milli daga.
Til að mynda geti rakinn í loftinu um þessar mundir haft áhrif á bylgjulengdir frá gervitunglum sem mæla landris. Gæti það hugsanlega útskýrt niðurstöður mælinga sem sýna að land sé tekið að síga. Ekki sé þó hægt að útiloka að slík þróun sé að eiga sér stað.
„Þetta gæti verið oftúlkun, það er of snemmt að segja. Við þurfum lengri tíma til að vita hvort þetta sé alvöru,“ segir Benedikt.
Ef meðalhraði landrissins síðustu daga er skoðaður virðist hraðinn vera svipaður og áður en eldgos hófst 18. desember við Sundhnúkagígaröðina. Rúmmál kviku undir Svartsengi nálgast sömuleiðis nú það magn sem hafði safnast þar fyrir síðasta eldgos.
„Það gæti jafnvel verið búið að ná sama rúmmálsmagni ef við skoðum óvissuna í svona rúmmálsreikningum. Við erum kannski nokkra daga frá því eða rétt komin yfir það.“
„Það voru ellefu milljón rúmmetrar af kviku sem færðust frá Svartsengi, yfir í kvikuganginn og í eldgosið.“