Gátu vart talað saman eftir vantraustsyfirlýsingar

Aðalsteinn Kjartansson.
Aðalsteinn Kjartansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Því miður hefur starfsemi félagsins liðið fyrir það ástand sem hefur ríkt á skrifstofunni,” segir Aðalsteinn Kjartansson, varaformaður Blaðamannafélagsins (BÍ), spurður út í uppsögn framkvæmdastjóra félagsins í gær.

Aðalsteinn segir að starfslok Hjálmars Jónssonar sem framkvæmdastjóra hafi orðið í kjölfar ályktunar sem var borin upp á stjórnarfundi og samþykkt samhljóma.

Trúnaðarbrestur hafi ríkt á milli stjórnar og Hjálmars, líkt og kom fram í tilkynningu BÍ í gær.

Hjálmar Jónsson, fráfarandi framkvæmdastjóri.
Hjálmar Jónsson, fráfarandi framkvæmdastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Margítrekaðar vantraustsyfirlýsingar“

„Margítrekaðar vantraustsyfirlýsingar hafa komið frá fráfarandi framkvæmdastjóra í garð forystu félagsins. Það gefur auga leið að starfsemi hvaða félags sem er verður ekki rekin með eðlilegum og ábyrgum hætti ef forysta og framkvæmdastjóri geta allt að því ekki talað saman,” greinir Aðalsteinn frá.

Hann bendir þó á að hann hafi verið í stjórn félagsins þegar Hjálmar var formaður og að samstarf þeirra hafi verið gott.

„Mér þykir afskaplega leiðinlegt að þetta skuli vera niðurstaðan en stjórnin hefur átt mjög erfitt með að þoka ýmsum málum áfram vegna þessa ástands sem ríkt hefur á skrifstofu félagsins.”

Fljótlega verður boðað til aðalfundar BÍ þar sem stjórnarkjör fer fram, bætir hann við, og segir að í gegnum það ferli geti félagsmenn í BÍ valið sér forystu. Segir hann mjög mikilvægt að öllum sé ljóst að lýðræðisleg vinnubrögð séu stunduð hjá félaginu við val á forystu.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Vildu ekki lýsa yfir vantrausti á formanninn

Hjálmar gagnrýndi Sigríði Dögg í viðtali við mbl.is í gær og sagði hana ekki starfi sínu vaxna. Hún væri ekki með hreinan skjöld í fjármálum og gæfi ekki skýringar í þeim efnum.

Spurður hvað honum finnst um þessar ásakanir segir Aðalsteinn að þær hafi komið í veg fyrir að stjórnin hafi getað haldið áfram sinni vinnu, sem hafi ekki tengst þessum ásökunum.

„Það hefur legið fyrir lengi að stjórnin tæki ekki þessum ásökunum um einhvers konar skattalegt misferli Sigríðar Daggar þannig að við værum tilbúin að lýsa yfir algjöru vantrausti á öll störf hennar fyrir félagið,” svarar Aðalsteinn og bætir við að framkvæmdastjórinn hafi ekki sætt sig við þá niðurstöðu.

Nefnir hann einnig að engir ferlar séu til staðar innan félagsins um að stjórn geti boðað til formannskjörs, heldur fari það fram eins og áður sagði á aðalfundi sem er boðaður á tilteknum tíma samkvæmt samþykktum félagsins. 

Engin umræða um fjármálin

Inntur nánar eftir því hvort umræða hafi farið fram innan stjórnarinnar um fjármál formannsins segir Aðalsteinn svo ekki vera. Umræða hafi aftur á móti farið fram um ásakanirnar í garð hennar sem hafi birst opinberlega.

„Niðurstaðan hefur verið sú að þær ásakanir sem fram hafa komið hafa ekki verið með þeim hætti að það kallaði á víðtæka og fortakslausa vantraustsyfirlýsingu á hennar störf fyrir Blaðamannafélagið, enda tengjast þær ásakanir ekki störfum hennar fyrir félagið,” segir Aðalsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert